Ósonmęlingar ķ Reykjavķk 1995-1998 og įstand ósonlagsins į noršurslóšum

Jaršešlissviš

 

1. Inngangur Efnisyfirlit 3. Nišurstöšur męlinga


2. FRAMKVÆMD DOBSONMÆLINGA OG ÁSTAND TÆKIS

Eins og áður segir hefur að jafnaði verið gerð ein Dobsonmæling á dag þegar skilyrði hafa leyft. Mæliaðferðin byggist á því að bera saman bylgjur á útfjólubláa sviðinu og eru flestar bylgjulengdirnar á bilinu 305- 340 nm. Mælingar er hægt að gera á nokkrum mismunandi bylgjulengdarpörum (A, C, C“, D) og eru bylgjulengdir hvers pars valdar þannig að ósonið gleypi aðra þeirra mjög vel, en hafi mjög takmörkuð áhrif á hina. Grundvallarmælingin, og sú sem gefur nákvæmastar niðurstöður, er svokölluð AD-mæling beint á sól, en við hana eru notuð bylgjulengdarpörin 306 og 325 nm annarsvegar og 318 og 340 nm hinsvegar. Þessa mælingu er hægt að gera þegar sólar nýtur við og er a.m.k. 19° yfir sjóndeildarhring, en þegar sólin er í 14- 19° hæð má notast við CD-mælingu beint á sól. Þegar sólin er á bak við ský eða of lágt á lofti er að jafnaði gerð CC“-mæling í hvirfilpunkt, þó verður sólarhæð að vera a.m.k. 12.5°. Þegar hún er 9- 12.5° má gera CD-mælingu í hvirfilpunkt, en sú mæling er ónákvæmari. Það tímabil ársins sem sól nær ekki 9° hæð á sólarhádegi, þ.e. frá um 10. nóvember til 31. janúar, er engar mælingar hægt að gera að gagni nema hugsanlega beint á tungl. Slíkar mælingar hafa nánast ekkert verið gerðar hér í ljósi þess hversu stopular þær hljóta að vera og kostnaðarsamar.

Mælt er heildarmagn ósons í lofthjúpnum, þ.e. magn ósons í loftsúlu sem nær allt frá jörð á mælistað og upp í gegnum lofthjúpinn. Magnið er síðan sett fram í Dobsoneiningum (De), en ein De samsvarar 1/1000 cm þykku ósonlagi við staðalaðstæður (STP), þ.e. við 0°C og 1013 hPa þrýsting. Jafnframt skal ósonið aðöllu óblandað öðrum efnum. Að gefnum þessum aðstæðum reynist ósonlagið aðeins 0.2- 0.5 cm að þykkt.

Dobsontækið hefur þrisvar verið sent utan til lagfæringa og samanburðarprófana við staðaltæki, þ.e. árin 1977, 1990 og 1995. Við samanburð við staðaltæki í Boulder í Colorado 1977 kom í ljós að tækið sýndi niðurstöður ADDS-mælinga sem voru að jafnaði 7 - 8% of lágar, mismunandi eftir sólarhæð. Við samskonar samanburð í Arosa í Sviss 1990 reyndust þær að jafnaði 3.16% of lágar, en í Arosa 1995 0.87% of háar. Í öll skiptin var tækið leiðrétt í samræmi við staðaltækið. Stefnt er að því að tækið verði samanburðarprófað næst árið 2000.