Ósonmćlingar í Reykjavík 1995-1998 og ástand ósonlagsins á norđurslóđum

Jarđeđlissviđ

 

3. Niđurstöđur mćlinga Efnisyfirlit 5. Niđurlag


4. ÁSTAND ÓSONLAGSINS Á NORÐURSLÓÐUM

Hér verður litið á ástand ósonlagsins á norðurslóðum á því tímabili sem hér er til umfjöllunar. Með norðurslóðum er sérstaklega átt við svæðið milli 50°N og 80°N þótt stundum verði vikið þar suður fyrir. Einkum verður hugað að ástandi lofthjúpsins á því tímabili á hverju ári þegar eyðing ósons vegna athafna manna getur átt sér stað, þ.e. af völdum mikils magns klór- og brómsambanda sem jarðarbúar hafa látið frá sér og borist hefur upp í heiðhvolfið. Þetta tímabil getur náð frá mánaðarmótum nóvember–desember og fram í apríl. Þá verður litið frekar á niðurstöður mælinganna í Reykjavík og þær settar í samhengi við heildarástandið á svæðinu.

Staða og útbreiðsla pólhvirfilsins (polar vortex) í efri hluta veðrahvolfsins og heiðhvolfinu hefur mikil áhrif á ósonmagnið. Pólhvirfillinn er mjög kaldur loftmassi sem er í mjög litlu sambandi við loftmassa af suðlægari breiddargráðum, en því valda öflugir vestlægir vindar, þ.á.m. skotvindurinn (jet stream), en hans gætir helst í um 10 km hæð, rétt við veðrahvörfin. Staðsetning hvirfilsins er breytileg, en yfirleitt er hann að finna norðan 60°N. Samspil nokkurra þátta, svo sem þegar sól rís aftur upp fyrir sjóndeildarhring eftir vetrarmyrkrið og að veðurkerfi veðrahvolfsins brjóta sér leið norður, leysa að lokum upp pólhvirfilinn. Hvenær hvirfillinn hverfur er mjög breytilegt frá ári til árs, en hans getur gætt fram í apríl (European Ozone Research Coordinating Unit 1995).

Eins og áður segir er pólhvirfillinn mjög kaldur loftmassi. Hitastigið í efri hluta veðrahvolfsins og í heiðhvolfinu, á þeim svæðum þar sem hann ríkir og í grennd við þau, fer einatt niður fyrir - 78°C og skapast þá skilyrði til myndunar pólskýja (polar stratospheric clouds). Nærværa þeirra auk mikils magns af ósoneyðandi efnum, klór- og brómsamböndum, og geislun frá hækkandi sól myndar aðstæður fyrir ósoneyðingu sem verður því umfangsmeiri eftir því sem styrkur þessara efnasambanda vex.