Ósonmęlingar ķ Reykjavķk 1995-1998 og įstand ósonlagsins į noršurslóšum

Jaršešlissviš

 

4. Įstand ósonlagsins į noršurslóšum Efnisyfirlit 6. Heimildaskrį


5. NIŠURLAG

Þegar litið er í samhengi á ástand ósonlagsins á norðurslóðum árin 1995–1998 kemur í ljós að það er mjög slæmt yfir vetrartímann. Síðasta árið er þó nokkur undantekning í þessu sambandi.

Árið 1995 var ástandið það lakasta sem sést hafði fram að því, enda metkuldi í heiðhvolfinu um alllangt skeið. Árið 1996 var hitinn þar enn lægri og ósoneyðingin meiri. Framan af næsta vetri var ástandið mun skárra, en er á leið dapraðist það mjög og sló lágt hitastig fyrri met með tilsvararandi ósoneyðingu. Síðasta veturinn var mjög kalt framan af, en þegar kom fram yfir áramótin 1997–1998 var hitastigið í heiðhvolfinu talsvert hærra en árin á undan og heilsufar ósonlagsins í góðu samræmi við það.

Hið slæma ástand yfir vetrartímann staðfestist ennfremur í langtímabreytingu ósonmagnsins. Á 60°N var ósonminnkunin að jafnaði meiri en 6% á áratug í desember–maí á tímabilinu 1979–1994, en um 4% í júní–nóvember (World Meteorological Organization 1995). Þegar síðustu árunum er bætt við er ljóst að þessar tölur hafa hækkað verulega yfir vetrartímann. Séu mælingar frá Reykjavík skoðaðar sérstaklega, hafði ekki orðið um minnkun að ræða á útmánuðum 1977–1990, gagnstætt því sem víðast annarstaðar hafði reynst á norðurslóðum (Guðmundur G. Bjarnason o.fl. 1992). Ljóst er að þessi mynd hefur breyst verulega síðan og færst í sömu átt og annarstaðar á hærri breiddargráðum.

Hitastigið er lægst í pólhvirflinum, en lega hans og útbreiðsla er breytileg frá einu ári til annars. Hvilfillinn var ráðandi hér við land um langt skeið á útmánuðum 1996 og í samræmi við það var þá stundum um verulega ósoneyðingu að ræða af völdum klór- og brómsambanda. Jafnvel má segja að dagana 19. og 20. febrúar hafi verið svokallað ósongat yfir Íslandi, svo lítið var ósonmagnið þá (mynd 3). Hinsvegar gætti eyðingar af völdum ósoneyðandi efna lítt hin árin.

Sem fyrr segir er breytileiki ósonmagnsins mikill frá degi til dags á tímabilinu febrúar–apríl og helgast hann af miklu háloftaaðstreymi ósons frá miðbaug og hröðum breytingum á stöðu veðurkerfanna. Ef mjög lítið ósonmagn mælist í Reykjavík á þessum árstíma vaknar sú spurning hvort ósoneyðandi efni séu sökudólgurinn í viðkomandi tilviki. Oftast kemur þó í ljós að svo getur ekki hafa verið, nægilega hátt hitastig í heiðhvolfinu útilokar það. Hinsvegar eru allar forsendur fyrir því að ástandið á útmánuðum 1996 geti endurtekið sig hér á næstu árum og áratugum. Magn klór- og brómsambanda í heiðhvolfinu á enn eftir að aukast að einhverju marki næstu árin, en í byrjun næstu aldar er því spáð að það hafi náð hámarki. Þetta hámark getur varað í nokkur ár, en síðan fer að draga úr vegna þeirra takmarkana á notkun ósoneyðandi efna sem alþjóðasamningar kveða á um. Samt má reikna með að liðið geti meira en hálf öld uns magn efnanna verði komið niður í það sama og var áður en eyðing af völdum þeirra hófst (World Meteorological Organization 1995).

Þakkarorð

Flosi Hrafn Sigurðsson og Ragnar Stefánsson lásu greinargerðina yfir og bentu á sitthvað sem betur mátti fara. Eru þeim færðar þakkir fyrir.