Í vikunni mældust um 200 skjálftar. Stærsti skjálftinn var af stærð 4 með upptök um 16 km ANA af Grímsey. Á þessum slóðum mældust tæplega 100 skjálftar, þ. e. um helmingur skjálftanna, flestir í byrjun vikunnar. Óvenju mikil skjálftavirkni
var í Kverkfjöllum í vikunni og var stærsti skjálftinn um 3 á Richter. Á Kolbeinseyjarhrygg um 250 km norður af landinu mældust 3 skjálftar og voru þeir allir af stærð um eða ríflega 3. Á sunnudag mældist svo skjálfti um 150 km austur af Höfn í Hornafirði og var hann um 2,5 á Richter.
Suðurland
Á suðvesturhorninu frá Reykjaneshrygg og að Torfajökli mældust 35 skjálftar auk 15 skjálfta undir Mýrdalsjökli. Skjálftarnir í Mýrdalsjökli voru allir smáir, einn skjálfti náði þó stærð 2,2. Enginn annar skjálfti á suðvesturhorninu náði stærð 2.
Norðurland
Mesta virknin í vikunni var norður af landinu á Tjörnesbrotabeltinu. Aðfararnótt mánudags hófst hrina um 16 km austur af Grímsey og var virknin mest á milli 5 og 7 um morgunin. Stærsti skjálftinn varð kl. rúmlega 6 og mældist hann 4 á Richter. Auk hrinunnar austur af Grímsey var nokkur virkni í Öxarfirði og úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Einn smáskjálfti mældist tæpa 2 km vestur af Kröfluvirkjun.
Hálendið
Enn er töluverð virkni undir Vatnajökli. Athyglisverðust er virknin í Kverkfjöllum, en þar mældust 7 skjálftar á stærðarbilinu 1.3 - 2.7. Jarðskjálftar þarna
sjást nú betur en áður (fyrir áramótin 2004 - 2005) því mælar voru settir upp á Kárahnjúkasvæðinu í lok síðasta árs. Það eitt getur þó ekki skýrt þessa auknu virkni, því skjáltarnir núna ná flestir stærðinni 2.