| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20080623 - 20080629, vika 26
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Eftirskjálftavirkni í Ölfusi og Flóa hélt áfram, en heldur dró úr virkninni um helgina. Hátt í 1400 jarðskjálftar mældust í vikunni, langflestir eftirskjálftar 29. maí jarðskjálftans.
Suðurland
Eftirskjálftar Suðurlandsskjálftans í maí voru margir en smáir. Aðeins einn var yfir 2 að stærð, vestast á virka svæðinu. Mesta skjálftavirknin var á suðurhluta Kross-sprungunnar. Önnur skjálftavirkni á Suðurlandi var lítil.
Reykjaneshryggur og Reykjanesskagi
Á miðvikudag og fimmtudag, 24. og 25. júní, mældust átta jarðskjálftar við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg. Þeir voru á stærðarbilinu 1,5 - 2,3 stig. Lítil skjálftavirkni var á Reykjanesskaga.
Norðurland
Mesta skjálftavirknin í Tjörnesbrotabeltinu var um 13 km norður af Grímsey. Á fimmtudaginn, 26. júní, mældust þar 25 jarðskjálftar í smáhrinu. Stærsti skjálftinn var 2,7 stig.
Hálendið
Á Þeistareykjasvæðinu mældust átta jarðskjálftar, 0,4 - 1,8 stig. Um þrjátíu jarðskjálftar voru staðsettir á Öskju/Herðubreiðarsvæðinu, allir innan við 2 stig.
Einn jarðskjálfti mældist í Bárðarbungu, 1,4 stig.
Einn jarðskjálfti varð undir Skjaldbreið (1,8) og þrír við Skálpanes (1,2 - 1,5), austan Langjökuls.
Mýrdalsjökull og Torfajökull
Tíu skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, sex innan Kötluöskjunnar og fjórir við Goðabungu. Stærsti var um 2 stig og var innan öskjunnar.
Yfir tíu skjálftar voru staðsettir á Torfajökulssvæðinu, stærsti um 2 stig.
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir