Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20080908 - 20080914, vika 37

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Alls mældust 415 jarðskjálftar í vikunni auk tveggja staðfestra og nokkurra líklegra sprenginga. Mesta virknin var á Kross-sprungunni eins og fyrri vikur. Stærsti skjálfti vikunnar var í Vatnajökli og var hann tæplega 3 stig.

Suðurland

Tæplega 240 smáskjálftar mældust í Ölfusi, Flóa og á Hengilssvæðinu. Þar af voru tæplega 150 á Kross-sprungunni. Nokkrir skjálftar mældust á Suðurlandsundirlendinu og voru þeir um og innan við 1 að stærð.

Reykjanesskagi

Ellefu skjálftar mældust á Reykjanesskaganum í vikunni. Þrír við Fagradalsfjallið en aðrir nær Kleifarvatni. Stærsti skjálftinn var rúmlega 6 km norðnorðvestur af Krísuvík og var hann 2,5 að stærð, aðrir voru mun minni. Á Reykjaneshryggnum mældust sjö skjálftar, flestir á mánudeginum. Sá stærsti var um 2 stig.

Norðurland

Ríflega 40 skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi og var sá stærsti úti fyrir Eyjafirði og 2,5 að stærð. Níu skjálfar urðu norður af Flatey, 12 skammt norðvestur af Húsavík og fimm í Öxarfirði. Allir voru þeir um eða rétt rúmlega 1.

Hálendið

Í Vatnajökli mældust tæplega 60 skjálftar. Um 20 voru norðaustur af Bárðarbungu og við Kistufell. Stærsti skjálftinn í jöklinum var á þeim slóðum og var hann tæplega 3 stig. Á laugardagsmorgni sást aukinn órói á stöðvunum sem næstar eru Skeiðarárjökli og hélst hann alla helgina. Allmargir ísskjálftar voru staðsettir í jöklinum. Mikil úrkoma (mikil úrkoma getur framkallað ísskjálfta) var á svæðinu um helgina og hófst hún aðfaranótt laugardags. Filippus Hannesson á Núpsstað varð var við hlaup í Súlu á sunnudaginn og er þetta í annað skipið í sumar sem hleypur úr Grænalóni. Einn skjálfti mældist í vesturhluta Langjökuls og var hann 1,0 að stærð. Á svæðinu norðan Vatnajökuls urðu rúmlega 20 skjálftar og voru þeir allir litlir.

Mýrdalsjökull

Þrettán skjálftar mældust í Mýrdalsjökli. Flestir voru í vestanverðum jöklinum en tveir voru innan öskjunnar. Stærsti skjálftinn var í vesturjöklinum og var hann 2,3 stig. Einn smáskjáflti varð í Eyjafjallajökli og einn á Torfajökulssvæðinu.

Sigþrúður Ármannsdóttir