Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20090223 - 20090301, vika 09

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni voru staðsettir 289 atburðir, þar af 20 líklegar sprengingar vegna framkvæmda. Hæst í vikunni bar jarðskjálfta af stærð 4,4 á Lokahrygg í Vatnajökli, en einnig varð myndarlegur skjálfti við Hveravelli og nokkur smáskjálftavirkni víða um land.

Suðurland

Á suðurlandi voru allir skjálftar smáir. Mesta virknin var á Krosssprungunni, en smáskjálftar mældust líka á allnokkrum þekktum jarðskjálftasprungum á suðurlandi. Þá urðu tveir smáskjálftar vestan við Hengil.

Reykjanesskagi

Dreifð smáskjálftavirkni var sunnan og vestan við Kleifarvatn. Þar hefur verið nokkur virkni undanfarið. Hér má skoða tímaþróun jarðskjálftavirkni á litlu svæði sunnan og vestan við Kleifarvatn frá 1994 (allir skjálftar). Frá 1997 til 2000 var nokkuð áköf virkni. Síðustu ár virðist virknin hafa verið að aukast smátt og smátt á þessu svæði.

Norðurland

Nokkur jarðskjálftavirkni var úti fyrir Norðurlandi. Um 20 skjálftar urðu austan við Grímsey og um 15 skjálftar í Eyjafjarðaráli seinni part vikunnar. Þá voru 7 skjálftar staðsettir við Flatey í vikunni. Stærsti skjálftinn úti fyrri norðurlandi í vikunni var 2,6 að stærð, um 10 km VSV af Kópaskeri. Örfáir smáskjálftar mældust á Þeistareykjar- og Kröflusvæðunum.

Hálendið

Lokahryggur: 1. mars klukkan 00:41 varð jarðskjálfti af stærðinni 4,4 á Lokahrygg í Vatnajökli. Langt er síðan jafnstór skjálfti hefur orðið á Lokahrygg. Fyrr í vikunni höfðu sjö mun smærri skjálftar verið staðsettir á sömu slóðum. Klukkan 00:25 varð jarðskjálfti, 2,8 að stærð, á Lokahrygg og nokkrir smærri skjálftar. Það dróg mjög hratt úr virkninni, eins og sést kannski best af þessu óróariti frá jarðskjálftastöðvum í kringum Vatnajökul. Meginskjálftinn var óvenjustór fyrir þetta svæði. Hér má sjá jarðskjálftarit frá Grímsfjalli af meginskjálftanum. Skjálftinn innihélt hlutfallslega mikið af lágum tíðnum og var ekki með skýra fasa, en slíkt er algengt fyrir skjálfta sem verða í eldstöðvum.
Vatnajökull utan Lokahryggs: Nokkrir skjálftar mældust nærri Bárðabungu, við Kistufell og nærri Grímsvötnum. Tveir jarðskjálftar, hvor um sig 2,4 að stærð, urðu með stuttu millibili í Kverkfjöllum 1. mars.
Hveravellir: 24. febrúar klukkan 22:39 varð jarðskjálfti af stærð 3,4 skammt frá Hveravöllum þar sem nokkur virkni hafði verið vikuna á undan. Margir smáir skjálftar, líklega á sömu slóðum, fylgdu í kjölfarið en ekki var unnt að staðsetja þá vegna hversu langt er í næstu mæla á eftir mælinum á Hvervöllum.
Norðan Vatnajökuls: Skammt norðan Upptyppinga mældust 28 smáir skjálftar, og tveir í grennd við Kreppubrú. Nokkrir smáskjálftar mældust í Öskju og einn NV við Öskju í Dyngjufjöllum Ytri. Einn skjálfti var staðsettur undir flæðunum skammt norðan Dyngjujökuls og var sá skjálfti ágætlega skýr og vel staðsettur.

Mýrdalsjökull

Fáir og smáir skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli.

Hér má lesa umfjöllun um jarðskjálftavirkni í vikunni frá degi til dags.
Halldór Geirsson