Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
---|
[Skjálftalisti] | [Fyrri vika] | [Næsta vika] | [Aðrar vikur] | [Jarðeðlissvið] |
[Suðurlandi] | [Reykjanesi] | [Hengilssvæðinu] | [Bárðarbungu] | [Lang-og Hofsjökli] | [Öskju] | [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] | [Norðurlandi] |
Tæplega 1100 jarðskjálftar mældust í vikunni. Mesta virknin var við Kleifarvatn en þar hófst skjálftaruna á fimmtudagskvöldið 24. febrúar og stóð út vikuna. Stærstu skjálftar vikunnar urðu á sunnudag við Kleifarvatn, annar var fjögur stig en hinn 4,2. Á öðrum svæðum á landinu var fremur rólegt.
Við Húsmúla á Hengilssvæðinu mældust 124 skjálftar, flestallir á mánudeginum, sem urðu vegna niðurdælingar á vegum
Orkuveitunnar. Nokkrir skjálftar til viðbótar mældust austar á svæðinu.
Rólegt var í Ölfusi og á Suðurlandsundirlendinu.
Á fimmtudagskvöldið hófst jarðskjálftaruna vestan og sunnan við Kleifarvatn og stóð hún út alla vikuna.
Snemma á
sunnudagsmorgni (upp úr klukkan 5) fóru skjálftarnir stækkandi og mældust nokkrir um og yfir þremur stigum. Klukkan 09:06 um morguninn varð síðan skjálfti sem var
fjögur stig og fannst hann víða á höfuðborgarsvæðinu, á Akranesi og í Borgarnesi. Seinni part sunnudagsins virtist heldur
vera að draga úr virkninni en klukkan 17:27 kom skjálfti sem var heldur stærri en sá fyrri,
eða 4,2 stig og var hann staðsettur nokkru sunnar en sá fyrri. Hann fannst á höfuðborgarsvæðinu, í Borgarfirði, Grindavík og austur á Hellu og
Hvolsvelli. Um klukkan 21:30 á sunnudagskvöldið fór heldur að draga úr virkninni.
Alls voru staðsettir um 840 skjálftar við Kleifarvatn í vikunni, flestir á
sunnudeginum.
Upptök skjálfta við
Krýsuvík á árinu 2011. Svartir hringir tákna skjálfta fram til 26. febrúar en rauðir þann 27. febrúar.
Á þessari mynd má m. a. sjá uppsafnaðan
fjölda skjálfta sem hefur orðið við Krýsuvík frá árinu 2004.
Fremur rólegt var í Tjörnesbrotabeltinu þessa vikuna en rétt rúmlega 30 skjálftar mældust þar, sá stærsti 2,5 stig.
Nokkrir smáskjálftar mældust við Kröflu og Þeistareyki.
Í Vatnajökli mældust rúmlega tveir tugir skjálfta. Við Grímsvötn urðu sex skjálftar, sá stærsti 3,6 stig. Þessi skjálfti var stærstur í jöklinum í þessari viku. Fjórir skjálftar mældust undir
Kverkfjöllum, sá stærsti tæplega tvö stig. Undir Lokahrygg mældust fimm skjálftar, þrír undir Bárðarbungu og sami fjöldi
við Kistufell. Allir þeir skjáfltar voru um og innan við tvö stig.
Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust 15 smáskjálftar, þar af sex við Öskju.
Í Geitlandsjökli í sunnanverðum Langjökli mældust þrír skjálftar, sá stærsti losaði tvö stig. Á fimmtudagskvöld varð
skjálfti vestan Hofsjökuls sem var rúm þrjú stig.
Tólf skjálftar mældust í vikunni, helmingurinn innan öskjunnar og helmingurinn í vesturjöklinum. Stærsti skjálftinn var tvö stig og var hann innan öskjunnar. Sjö smjáskjálftar urðu undir toppgíg Eyjafjallajökuls.