| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20110307 - 20110313, vika 10

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Í vikunni voru staðsettir 222 jarðskjálftar og 3 líklegar sprengingar.
Suðurland
Fáeinir smáskjálftar mældust í Flóanum, við Hestvatn og í Holtum. Stærstu skjálftarnir
mældust rúmlega 1 að stærð.
Reykjanesskagi
Tveir jarðskjálftar voru á norðanverðum Reykjaneshrygg. Annar 1,7 að stærð en hinn 1,4.
Jarðskjálftavirkni hélt áfram frá fyrri viku við Núpshlíðarháls og við Krýsvík á Reykjanesskaga.
Alls mældust um 80 jarðskjálftar á svæðinu og stærsti skjálftnn var 1,6 stig.
Fimm jarðskjálftar áttu upptök í Lambafellshrauni norðan við Geitafell á Reykjanesskaga og
voru þeir allir undir 1 að stærð.
Norðurland
Um 24 jarðskjálftar mældust með upptök í Tjörnesbrotabeltinu. Stærstu skjálftarnir
voru við Kolbeinsey. Sá stærsti 2,9 að stærð. Skjálfti að stærð 2,1 átti upptök norðaustur af Grímsey.
Tveir skjálftar mældust við Jan Mayen þann 7. mars og 3 skjálftar voru á Kolbeinseyjarhryggnum um 200 km norður af Kolbeinsey.
Tveir skjálftar voru við Kröflu og einn við Þeistareyki.
Síðdegis á mánudeginum og fram á þriðjudaginn var mjög mikið um frostbresti á Mývatnssvæðinu og þar suður af.
Hálendið
Rúmlega 30 jarðskjálftar mældust undir og við Vatnajökul. Stærsti skjálftinn var um 2,8 að stærð með upptök
á Lokahrygg þann 12. mars kl. 18:56.
Við Grímsvötn mældust 11 jarðskjálftar og sá stærsti mældist um 1,7 stig.
Við Öskju og Herðubreið voru rúmlega 20 jarðskjálftar. Sá stærsti við Öskju þann 10. mars kl. 20:57, 2,2 að stærð.
Röð af djúpum skjálftum á meira en 20 km dýpi mældust norðaustur af Öskju um kl. 10:05 þann 11. mars. Á skjálftagrafi frá
mæli við Öskju sýnir að þetta varaði í um 75 sekundur.
Í byrjun vikunnar mældust fáeinir skjálftar við Þóris- og Geitlandsjökul. Sá stærsti í Þórisjökli þann
7. mars kl. 01:21, að stærð 1,9.
Þrír smáskjálftar áttu upptök við Högnhöfða um 9 km vestnorðvestur af Geysi í Haukadal.
Mýrdalsjökull
Undir Mýrdals- og Eyjafjallajökli mældust 23 skjálftar. Flestir og þeir stærstu um 2 stig áttu upptök í vestanverðum
Mýrdalsjökli, Goðabungu. Fjórir skjálftar allir minni en 0 að stærð áttu upptök undir Eyjafjallajökli.
Jarðskjálfti í Japan
Jarðskjálfti að stærð 8,9 (NEIC) varð þann 11. mars og átti upptök
í sjó úti fyrir norðausturströnd Honshu eyjar um 130 km austur af borginni Sendai.
Svona stórir jarðskjálftar mælast á mælum um allan heim. Skjálftinn mælist td
mjög vel í borholumæli á Ásbjarnarstöðum (BORG) í Borgarfirði
sem er í um 76° eða 8360 km fjarlægð frá upptökum skjálftans. Sjá má skjálftagröf frá skjálftanum
á mælum víða um heim hjá Global Seismograph Network (IRIS/IDA).
IRIS hefur einnig sett upp síðu með línuritum frá breiðbandsmælum vítt um heim.
Skjálftinn og eftirskjálftar hans koma vel fram á mælum hér á landi eins og td má sjá af óróagröfum frá mælum
á Norðurlandi.
Harward háskóli hefur metið stærð brotflatarins ofl í M8.9 skjálftanum.
Jarðskjálftamiðstöðin í Tokyo (ERI) er með upplýsingasíðu um jarðskjálftann og afleiðingar hans.
Gunnar B. Guðmundsson