Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20120709 - 20120715, vika 28

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 400 jarðskjálftar mældust í vikunni. Stærsti skjálftinn, Ml 3,0, átti upptök undir vestanverðum Langjökli, norður af Geitlandsjökli.

Reykjaneshryggur og -skagi

Út á Reykjaneshrygg mældust sex jarðskjálftar, einn við Eldey og fimm við Geirfugladrang. Þeir voru allir innan við tvö stig að stærð.
Tveir smáskjálftar mældust við Grindavík 11. og 12. júlí. Þeir voru innan við einn að stærð. Fjórir smáskjálftar áttu upptök undir Kleifarvatni og einn við Vigdísarvelli, stærsti 1,3 að stærð. Hátt í tuttugu skjálftar, stærstu rúmlega eitt stig, mældust vestan Vífilsfells mánudaginn 9. júlí. Þann 15. júlí mældust sex smáskjálftar (innan við eitt stig) suður af Bláfjöllum.

Suðurland

Skjálftavirkni undir norðurhluta Ingólfsfjalls hélt áfram, mest fyrstu daga vikunnar. Um 120 jarðskjálftar mældust, stærsti um tvö stig. Um tuttugu smáskjálftar mældust að auki á víð og dreif um Hengilssvæðið, Ölfus og á syðri hluta Krossprungu. Á Suðurlandsundirlendinu mældust aðeins sex skjálftar, allir innan við einn að stærð.

Hálendið

Dagana 11. og 12. júlí mældust átta skjálftar undir vestanverðum Langjökli. Stærsti skjálftinn og fyrsti varð rétt fyrir kl. 9 11. júlí, 3,0 stig. Sjö skjálftar áttu upptök undir Skjaldbreið og einn suðaustan Langjökuls, norðan Sandvatns. Þeir voru allir innan við tvö stig.
Um 40 skjálftar mældust undir Vatnajökli. Flestir voru 11. og 12. júlí við Hamarinn í vesturjöklinum, en P-bylgjan var óskýr og staðsetning á skjálftunum því ónákvæm (dreifðir á kortinu). Stærstu skjálftarnir voru um tvö stig.
Undir Tungnafellsjökli mældust sex skjálftar, fimm þann 10. júlí. Þeir voru allir innan við tvö stig. Þrettán skjálftar mældust vestan Fjórðungsöldu á Sprengisandi, flestir 15. júlí. Þeir voru einnig innan við tvö stig að stærð.
Rétt austan Herðubreiðar mældust 13 skjálftar, sá stærsti 2,2 stig. Smáskjálftar mældust einnig sunnan við þessa virkni, annars var rólegt á Dyngjufjallasvæðinu.

Norðurland

Við Grímsey mældust aðeins þrír skjálftar en um tuttugu í Öxarfirði. Um 15 skjálftar urðu úti fyrir mynni Eyjafjarðar og svipaður fjöldi norður af Mánárbakka. Á Skjálfanda mældust tveir skjálftar. Stærsti skjálftinn í Tjörnesbrotabeltinu var 2,0 stig með upptök við Grímsey.
Einn smáskjálfti mældist við Mývatn og tveir á Kröflusvæðinu, allir innan við einn að stærð.
Nokkrir skjálftar mældust sem áttu upptök norður á Kolbeinseyjarhrygg.

Mýrdalsjökull

Tuttugu skjálftar mældust innan Kötluöskju í vikunni, stærsti 2,2 stig. Flestir áttu upptök norðarlega í öskjunni. Innan við tíu skjálftar mældust í vestanverðum Mýrdalsjökli og nokkrir við Hafursárjökul. Einhver virkni kom fram á mælum sem var staðsett suður af Hafursárjökli, en staðsetningar eru ónákvæmar.
Á Torfajökulssvæðinu mældust nokkrir dreifðir smáskjálftar.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir