Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20130304 - 20130310, vika 10

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 160 jarðskjálftar mældust í vikunni. Mesta virknin var um helgina en á laugardag varð smáhrina norðaustur af Öskju og á sunnudag varð önnur í Eyjafjarðarál og þar varð stærsti skjálfti vikunnar klukkan 01:13 aðfaranótt sunnudagsins.

Suðurland

Fáir og smáir skjálftar mældust Í Ölfusi og á Suðurlandsundirlendinu.

Reykjanesskagi

Rólegt var á Reykjanesskaga, einn skjálfti mældist við Kleifarvatn, fjórir smáskjálftar mældust síðdegis á mánudegi við Fagradalsfjall og einn við Geirfuglasker á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Klukkan 01:13 aðfaranótt sunnudags varð skjálfti, af stærð 3,8, um 14 kílómetra norðvestur af Gjögurtá í svonefndum Eyjafjarðarál þar sem tveir skjálftar, báðir yfir fimm stigum, mældust í október í fyrra. Nokkrar tilkynningar bárust frá Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Húsavík um að hann hefði fundist. Eftirskjálftar, flestir milli eitt og tvö stig að stærð, fylgdu í kjölfarið og stóð sú virkni fram á miðjan morgun. Tæplega 30 skjálftar mældust í hrinunni. Tæpur tugur skjálfta mældist norðaustan Grímseyjar og er það framhald hrinu sem var þar í síðustu viku. Nokkrir skjálftar mældust í Öxarfirði, við Þeistareyki og Kröflu. Einn skjálfti sem var yfir þremur að stærð mældist auk þess langt norðaustur af Kolbeinsey.

Hálendið

Nokkrir skjálftar mældust undir Bárðarbungu, við Hamarinn og í Kverkfjöllum, stærsti 1,6 við Kverkfjöll. Norðaustan Öskju, vestan Vikrafells var viðvarandi virkni mestalla vikuna en sínu mest á laugardaginn en laust eftir miðnætti aðfaranótt þess dags hófst smáhrina sem stóð fram eftir degi. Á þeim tíma voru 20 skjálftar staðsettir en í heildina á fjórða tuginn. Stærsti skjálftinn var 2,5 og varð upp úr hádegi á laugardag. Fimm litlir skjálftar mældust við Öskju og eru það heldur færri skjálftar en urðu þar í liðinni viku. Örfáir skjálftar urðu Við Herðubreið og Herðubreiðartögl.

Mýrdalsjökull

Á þriðja tug skjálfta mældist í Mýrdalsjökli, heldur færri en vikuna á undan. Sjö skjálftar urðu innan öskjunnar en flestir aðrir í vesturjöklinum. Enginn skjálfti náði tveimur stigum. Tíu skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, stærsti rúm tvö stig.

Sigþrúður Ármannsdóttir

12. mars 2013