| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20150824 - 20150830, vika 35

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Tæplega 450 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Stærsti skjálfti vikunnar mældist 2,4 að stærð við Bárðarbungu. Alls urðu um 50 skjálftar við Bárðarbunguöskjunna og um 70 í ganginum undir Dyngjujökli. Smáhrinur mældust við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga og í Eiturhóli norðan Hengils. Fremur rólegt var á Mýrdalsjökulssvæðinu.
Reykjanesskagi
Um tíu skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, sá stærsti var 2,3 að stærð þann 28. ágúst kl. 01:30. Ríflega 75 skjálftar urðu á sprungum og jarðhitasvæðum á Reykjanesskaga, þar af flestir við Fagradalsfjall norðaustan Grindavíkur, í Móhálsadal og við Vífilsfell. Enginn þeirra náði tveimur stigum.
Suðurland
Rúmlega 50 smáskjálftar voru staðsettir á Hengilssvæðinu, flestir við Eiturhól norðan Hengils og nokkrir í Hveradölum, við Hrómundartind og i Ölfusi. Auk þess mældust 15 skjálftar á jarðskjálftasprungum á Suðurlandsundirlendinu, þar af um helmingur á Hestfjallssprungu.
Mýrdalsjökull
Um 30 skjálftar urðu undir Mýrdalsjökli, þar af aðeins níu inni í Kötluöskjsunni, um tylft við Goðabungu og nokkrir við Hafursárjökul. Enginn þeirra náði tveimur stigum, allir í öskjunni voru minni en eitt stig. Tæplega 15 smákjálftar áttu upptök á Torfajökulssvæðinu, einn við Eyjafjallajökul og tveir við Heklu.
Hálendið
Rúmlega 50 jarðskjálftar voru staðsettir við Bárðarbunguöskjuna, sá stærsti var 2,4 að stærð þann 25. ágúst kl. 23:12. Um 70 skjálftar urðu í ganginum undir Dyngjujökli, allir innan við 1,5 stig. Tveir skjálftar áttu upptök við Tungnafellsjökul. Tæplega 10 skjálftar mældust við Öskju og 30 í kringum Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Smáhrina ísskjálfta mældist undir norðanverðum Síðujökli þann 27. ágúst, en engin merki eru um að virknin tengist hlaupi úr Skáftakötlum. Smávirkni var við Kverkfjöll og Grímsfjall.
Jarðskjálfti af stærð 2,1 átti upptök við Kerlingarfjöll þann 24. ágúst kl. 22:56. Auk þess mældist smáskjálftarvirkni við Geitlandsjökul og norðan Geysis.
Norðurland
Rúmlega 40 jarðskjálftar urðu úti fyrir Norðurlandi, þar af flestir eða um 30 á Grímseyjarbeltinu og 10 á Húsavíkur-Flateyjarbeltinu. Stærsti skjálftinn mældist í Öxarfirði þann 26. ágúst kl. 04:28 og var hann 2,1 að stærð. Smávirkni var við Kröflu og við Þeistareyki, einn smáskjálfti átti upptök á Tröllaskaga.
Jarðvakt: Martin Hensch, Salóme Bernharðsdóttir, Bryndís Ýr Gísladóttir og Sölvi Þrastason