Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20190211 - 20190217, vika 07

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 260 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í sjöundu viku ársins, litlu fleiri en vikuna á undan. Virknin í Öræfajökli og Bárðarbungu var svipuð og í síðustu viku. Stærsti skjálfti vikunnar varð 14. febrúar kl. 17:55 um fjóra kílómetra austnorðaustur af Keili, 2,6 að stærð. Engar jarðskjálftahrinur urðu í þessari viku. Þónokkrar tilkynningar bárust vegna sprenginga í tengslum við framkæmdir í Hafnarfjarðarhöfn 13. og 15. febrúar (um kl. 13:30 báða dagana).

Suðurland

Um 20 jarðskjálftar mældust á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Stærsti skjálftinn varð 15. febrúar kl. 22:45, um fjóra kílómetra suðvestur af Hrómundartindi, 1,5 að stærð. Litlu færri skjálftar voru staðsettir á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi, allir um og innan við eitt stig.

Reykjanesskagi

Um 70 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni og er það svipaður fjöldi og vikuna á undan. Klukkan 17:55 þann 13. febrúar varð jarðskjálfti, 2,6 að stærð, um fjóra kílómetra austnorðaustur af Keili. Tilkynning barst um að skjálfti hafi fundist í Hlíðunum í Reykjavík á sama tíma. Þessi skjálfti var stærsti skjálfti vikunnar.
Rúmlega 20 skjálftar urðu við vestanvert Vífilsfell á Bláfjallasvæðinu, frá því upp úr hádegi þann 14. febrúar og fram eftir nóttu þann 15. febrúar. Stærsti skjálftinn varð kl. 19:06 þann 14. febrúar, 2,0 að stærð. Aðrir skjálftar voru allir undir einu stigi. Um tugur skjálfta var staðsettur undir Brennisteinsfjöllum, stærstu rúmt stig. Tiltölulega rólegt var vestar á skaganum og á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Um 40 jarðskjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi, flestir í Grímseyjarbeltinu. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Stakur skjálfti mældist um sex kílómetra vestnorðvestur af Dalvík, 1,4 að stærð. Nokkrir smáskjálftar urðu á svæðunum við Þeistareyki og Kröflu.

Hálendið

Rúmlega 50 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, svipaður fjöldi og í síðustu viku. Virknin undir Öræfajökli var svipuð og í fyrri viku, tæplega 20 skjálftar. Allir skjálftarnir voru undir einu stigi. Tæpur tugur skjálfta varð við Bárðarbungu og er það einnig svipuð virkni og vikuna á undan. Stærsti skjálftinn varð 14. febrúar kl. 09:10, 1,6 að stærð. Um 10 djúpir smáskjálftar voru staðsettir, um 17 km austsuðaustur af Bárðarbungu, í bergganginum þar sem hann beygir til norðurs og álíka fjöldi í ganginum undir og framan við Dyngjujökul. Rólegt var í Grímsvötnum.
Tæplega 50 smáskjálftar (heldur fleiri en í síðustu viku) voru staðsettir á svæðinu norðan Vatnajökuls, þar af mældust um 20 við Öskju en aðrir við Herðubreið og Herðubreiðartögl.

Mýrdalsjökull

Rúmur tugur skjálfta var staðsettur í Mýrdalsjökli. Stærsti skjálftinn varð í sunnanverðri Kötluöskjunni, 11. febrúar kl. 02:46, 1,8 að stærð. Fáeinir litlir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Jarðvakt