| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20210208 - 20210214, vika 06

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Rúmlega 840 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, töluvert færri en í síðustu viku þegar virkni var töluverð og um 1600 skjálftar mældust. Stærsti skjálfti vikunnar varð þann 13. febrúar og mældist 4,0 að stærð í austanverðri Bárðarbunguöskjunni. Hrina sem hófst NA við Grímsey þann 4.febrúar stóð fram til 10. febrúar. Þar mældust rúmlega 230 skjálftar í þessari viku og var sá stærsti 3,0 að stærð. Á Reykjanesskaga var einnig nokkur virkni en þar mældust um 400 skjálftar þessa viku og þeir stærstu voru 3,0 og 2,9 að stærð. Skjálftinn sem var 2,9 að stærð varð við SA enda Kleifarvatns að kvöldi 9. febrúar, nokkrar tilkynningar bárust um að skjálftinn hefði fundist í byggð. Skjálftinn sem var 3,0 að stærð varð að morgni 11. febrúar við Fagradalsfjall, engar tilkynningar bárust um að hann hefði fundist.
Suðurland
Sextán skjálftar mældust á Hengilssvæðinu í síðustu viku, nokkuð færri en í síðustu viku þegar þeir voru um 80. Stærstu skjálftarnir á svæðinu voru 1,7 og 1,6 að stærð. Um tuttugu skjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu í vikunni, sá stærsti 1,7 að stærð.
Reykjanesskagi
Rúmlega 400 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, nokkuð færri en í síðustu viku þegar þeir voru um 1100 og virkni var mikil. Stærstu skjálftarnir voru 3,0 og 2,9 að stærð. Skjálftinn sem var 2,9 að stærð varð við SA enda Kleifarvatns að kvöldi 9. febrúar, nokkrar tilkynningar bárust um að skjálftinn hefði fundist. Skjálftinn sem var 3,0 að stærð varð að morgni 11. febrúar við Fagradalsfjall, engar tilkynningar bárust um að hann hefði fundist. Virknin dreifðist frá Reykjanestá í vestri að Kleifarvatni í austri, þó var virknin mest við Fagradalsfjall og vesturenda Kleifarvatns. Stakur skjálfti af stærð 1,8 mældist vestan við Eldey á Reykjaneshrygg.
Norðurland
Hrina sem hófst NA við Grímsey þann 4.febrúar stóð fram á 10. febrúar. Þar mældust um 230 skjálftar þessa viku og var sá stærsti 3,0 að stærð. Í heildina mældust hátt í 300 skjálftar á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku. Þar af voru 25 á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og um 30 á austurhluta Grímseyjarbeltisins.
Við Þeistareyki mældust fjórir skjálftar, sá stærsti 1,6 að stærð. Á Kröflusvæðinu mældist einn skjálfti af stærð 2,2. Það er stærsti skjálftinn á Kröflusvæðinu síðan í júní 2020.
Hálendið
Sjö smáskjálftar mældust í Öskju en 40 á svæðinu við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Rúmlega 20 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli, nokkuð færri en í síðustu viku þegar þeir voru tæplega 40. Stærsti skjálfti vikunnar þar og jafnframst sá stærsti á landinu þessa viku mældist 4,0 að stærð í Bárðarbungu þann 13. febrúar. Nokkrir minni eftirskjálftar mældust í Bárðarbunguöskjunni
en í heildina urðu 15 skjálftar þar í vikunni, en einnig mældust 4 djúpir skjálftar austan við Bárðarbungu og einn í bergganginum undir Dyngjujökli. Einn skjálfti að stærð 1,5 mældist í Grímsvötnum að kvöldi 14. febrúar og stakir smáskjálftar urðu í Kverkfjöllum og við Hamarinn. Fjórir smáskjálftar voru staðsettir í austanverðum Öræfajökli.
Þrír skjálftar mældust norðan við Langjökul og skammt vestan við Hveravelli í vikunni. Stærsti skjálftinn var 2,0 að stærð. Stakur skjálfti af stærð 1,8 mældist á milli Eystari og Vestari Hagafellsjökla.
Mýrdalsjökull
Sautján skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli sem er svipuð virkni og í síðustu viku. Stærstu skjálftarnir þar voru 2,2 og 2,1 að stærð. Enginn skjálfti mældist á Torfajökulssvæðinu, aðra vikuna í röð.
Jarðvakt