Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Um skjálftavirkni og líkur á eldgosi í Eyjafjallajökli

Ragnar Stefánsson og Gunnar B. Guðmundsson

Frá því 1991 hefur útlausn í jarðskjálftum verið eins og segir í annarri grein hér á síðunni, Streinútlausn í Eyjafjallajökulsskjálftum. Þótt þessir skjálftar séu allir undir Eyjafjallajökli eru þeir þó á mismunandi stöðum og á mismunandi dýpi.

Frá því skömmu fyrir árslok 1998 og þar til 1. júlí í sumar voru skjálftar nær eingöngu í stefnu NNA af toppgígnum, nálægt og undir Steinsholti og Steinsholtsjökli. Frá 1. júlí 1999 fram undir miðjan september dreifðust skjálftar víða undir jöklinum, bæði til suðurs og norðurs eins. Frá miðjum september og fram undir miðjan október var mjög lítið um skjálfta á svæðinu. Frá miðjum október og fram til loka nóvember eru [upptök skjálftanna] nær eingöngu SSA af toppgígnum og upptök flestra þeirra á litlu dýpi. Í lok nóvember hættu þessir skjálftar til suðurs og í byrjun desember hófst að nýju minniháttar skjálftahrina undir Steinsholti. Þetta bendir til að það sé þrýstisamband milli skjálftanna, þannig að þeir verði vegna vaxandi vökvaþrýstings í gosrásinni, sem leiðir til innskota eða hniks á ákveðnum stöðum, sem léttir á þrýstingnum í. Þrýstingurinn byggist svo upp aftur og næsta innskot eða hnik verður hugsanlega á öðrum stað.

Beitt var aðferð afstæðra staðsetninga margra skjálfta til að fá meiri nákvæmni í staðsetningu skjálftanna sem leituðu til suðurs, og brotaplön skjálftanna fundin. Í ljós kemur að brotfletir einstakra skjálfta liggja grunnt og á lítið hallandi plani. Skjálftarnir eru oft svokallaðir samgengisskjálftar og má skýra orsök þeirra þannig að vaxandi þrýstingur frá gosrásinni þrýsti á fjallshlíðina til suðurs, en innskot nálægt gosrásinni þrýsta berginu í sundur og auðvelda þannig færsluna. Hér með er sýnt dæmi um hvernig nokkrir þessara skjálfta geta raðað sér á hallandi plön. Skjálftarnir sem urðu undir Steinsholtinu í byrjun desember voru hins vegar á 5-7 km dýpi og sýndu gliðnun á mikið hallandi plani. Orsök gliðnunarinnar er líklega lóðréttur gangur vegna vökvainnskots til norðausturs úr gosrásinni.

Þegar horft er til skjálftanna sem hafa verið á þessu ári eða frá því í lok síðasta árs má greina eftirfarandi einkenni:

1) Lítið er um skjálfta undir sjálfum toppgígnum eða undir svæði sem er u.þ.b. 3-4 kílómetrar í þvermál á hátindi fjallsins.

2) Skjálftarnir til norðurs eru dýpstir næst toppi jökulsins og grynnka til norðurs.

Það sem hér hefur verið sagt er túlkað á eftirfarandi hátt:

Gosrásin undir Eyjafjallajökli nær sennilega niður á 15-20 km dýpi. Efnið í henni er poruríkt og mjög sprungið. Kvika getur streymt inn í gosrásina og veldur vökvaþrýstingi upp eftir henni. Nú er vökvaþrýstingur orðinn tiltölulega mikill á 3-5 km dýpi og farinn að valda þenslu í berglögum nálægt yfirborðinu, eins og kemur fram í grunnum skjálftum og hniki fjallshlíðarinnar til suðurs.

Sú spurning vaknar hvort líkur séu á að eldgos geti byrjað til suðurs. Það er líklegast að ef eldgos byrjar þarna verði það nálægt toppgígnum. Sú samgengisfærsla sem er til suðurs er ekki líkleg til að skapa aðstæður fyrir kvikustreymi þangað.

Út frá þekkingu á einu gosi í Eyjafjallajökli 1821-1823 má draga þá ályktun að gos í Eyjafjallajökli séu tiltölulega hæg með lítilli efnisframleiðslu. Þetta bendir til að ekki sé kvikuhólf þarna undir og gosið hafi verið rólegt útstreymi af gosgufum blönduðum ösku.

Þótt skjálftavirkni og landmælingar bendi til að gos nú yrði með svipuðum hætti og þá, er ekki hægt að útiloka að meiri hamfarir verði. Skjálftarnir undanfarin ár hafa ekki verið það miklir að þeir bendi til mikils þrýstings. Aðdragandi sprengigoss í Eyjafjallajökli mundi fela í sér miklu meiri skjálfta en við höfum séð þarna núna.

Ragnar Stefánsson og Gunnar B. Guðmundsson


kristinj@vedur.is