next up previous contents
Next: Úrvinnsla á útstöðvunum Up: STÖÐVASAGA OG TÆKNILEGIR ÞÆTTIR Previous: STÖÐVASAGA OG TÆKNILEGIR ÞÆTTIR

Nemar og vélbúnaður á jarðskjálftamælistöð

Meginþættir hverrar stafrænnar jarðskjálftamælistöðvar af SIL-gerð eru mannvirki fyrir nema, skjálftanemi og tilheyrandi stafsetjari (e. digitizer), og tölva sem hefur samskipti við stafsetjarann og úrvinnslumiðstöðina á Veðurstofunni (mynd 2).

Grafin er hola fyrir nemann og henni valinn staður þar sem hæfilega þykkur jarðvegur, 1-2 m, er ofan á góðri klöpp. Það hefur sýnt sig að jarðvegsþekjan dregur verulega úr áhrifum vinds. Í holuna er settur plastankur og steypt í botn hans plata sem neminn og

  
Figure 2: Uppsetning skjálftamæla Veðurstofu Íslands.
\begin{figure}
\centering
 \includegraphics[angle=-90.0,width=0.7\textwidth]{/heim/sr/hen/rap01/gmt/stod/siltaeki.eps}\end{figure}

stafsetjarinn hvíla á. Að öðru jöfnu er tölvunni komið fyrir þar sem aðgangur er að rafmagni og síma, en nú er unnið að þróun stöðva þar sem notaður er farsími og orka fengin frá vindrafstöðvum og sólarrafhlöðum. Fjarlægð frá tölvu setur vali á stað fyrir nema nokkrar skorður en fjarlægð þar á milli getur mest verið um 1200 m.

Notaðir hafa verið jarðskjálftanemar af tveimur gerðum. Báðar gerðirnar nema hreyfingar í þrjár stefnur; N-S, A-V og lóðrétt. Á flestum nýju stöðvanna er nemi af gerðinni LE-3D/1s eða LE-3D/5s frá þýska fyrirtækinu Lennartz Electronic. Lennartz nemarnir eru afburðavel byggðir og stöðugir. Á Króki er nemi af gerðinni Guralp-3T. Sá er breskur og er svokallaður breiðbandsnemi, þ.e. hann nemur bylgjur á breiðu tíðnisviði.

Nákvæmni í tímakvörðun jarðskjálftagagna er mjög mikilvæg. Klukkan sem notuð er í SIL-kerfinu er GPS klukka, að hluta til hönnuð á Veðurstofunni. Þetta er hefðbundinn GPS móttakari frá Trimble Navigation en við hann er byggð pll-rás (e. phase locked loop) sem sér um nákvæma tímasetningu á gögnunum og er tímaóvissan minni en 0.5 ms. Stafsetjarinn stafsetur jarðarhreyfingu þá sem neminn greinir og tímamerkir gögnin áður en hann sendir þau til stöðvartölvu.

Móttaka stöðvartölvu á jarðskjálftagögnum frá stafsetjara er um raðgátt (e. serial port) tölvunnar. Raðkortið er með tveimur gáttum sem eru nánast eins og á stöðluðu raðtengi fyrir einmenningstölvur, RS-232, en þar sem stafsetjarinn og neminn eru í gryfju í 400-1200 m fjarlægð frá tölvunni verður að nota annan staðal, RS-422. Tölvan, og þar með jarðskjálftamælirinn, eru tengd inn á gagnanet Landssíma Íslands með X.25 samskiptastaðalinum. Stöðvatölvur eru af þeirri gerð einmenningstölva sem ódýrust er á hverjum tíma. Stöðvatölvan notar UNIX stýrikerfið sem er fjölkeyrslu (e. multitasking) stýrikerfi og hentar mjög vel í rannsóknarumhverfi. Sem stendur er notuð útgáfa af UNIX sem heitir Interactive Unix. Þessi útgáfa er orðin gömul og hætt er að þjónusta hana. Því er nú unnið að því að skipta yfir í Solaris stýrikerfi sem þegar er keyrt á tölvum á Veðurstofunni.


next up previous contents
Next: Úrvinnsla á útstöðvunum Up: STÖÐVASAGA OG TÆKNILEGIR ÞÆTTIR Previous: STÖÐVASAGA OG TÆKNILEGIR ÞÆTTIR
Sigurður Th. Rögnvaldsson
1/30/1998