Ef gæði atburðar fara yfir fyrirfram skilgreind mörk er hann talinn
raunverulegur jarðskjálfti og beiðni send
til útstöðva um að senda bylgjugögn fyrir skjálftann til
miðstöðvar. Sótt eru bylgjugögn frá öllum stöðvum sem greindu atburðinn, auk
annarra stöðva sem eru svo nærri áætluðum upptökum skjálftans að gögn þaðan geti
nýst við úrvinnsluna. Yfirleitt eru sóttar
15-40 s frá hverri stöð og fer
lengd tímaraðarinnar eftir fjarlægð stöðvar frá upptökum skjálftans.
Jarðskjálftafræðingar
á Veðurstofunni yfirfara síðan þessi gögn, lagfæra tímaaflestra
ef þurfa þykir og bæta við aflestrum ef hægt er.
Þá eru staðsetningar reiknaðar að nýju, brotlausn skjálftans fundin og
stærð hans.
Með brotlausn er átt við ákvörðun á legu og stærð brotflatar
sem hreyfing verður á í jarðskjálfta, færslu, stefnu
færslu og fleira. Auk fyrstu hreyfistefnu P bylgna gefa sveifluvíddir
P og S bylgna upplýsingar um brotahreyfinguna í skjálftaupptökunum og
eru þær notaðar til að skorða brotlausnirnar
frekar (Slunga 1981, Sigurður Th. Rögnvaldsson og Slunga 1993).
Til að fá sæmilega brotlausn
þarf skjálftinn að mælast á 4-5 stöðvum, en það er þó
mikið háð því hver afstaða mæla er til skjálfta. Brotlausnin
gefur einnig vissar upplýsingar um það spennusvið sem veldur
skjálftanum.