Jarðeðlissvið - eldri fréttir

Heimasíða
Heim- Efnisyfirlit- Forsíða sviðsins- Jarðeðlissvið- Jarðskjálftar- Eldgos - GPS- Óson- Órói- Þensla- Fréttir- Starfsmenn & póstur -English- webmaster@vedur.is
 Suðurlandsskjálftar- Mýrdals- og Eyjafjallajökull

Jarðskjálfti á Reykjaneshrygg 22. desember 2003.

Kl. 01:51 í nótt, 22. des., varð jarðskjálfti af stærðinni 4 á Reykjaneshrygg, 70-80 km SV af Reykjanesi, skammt suður af Eldeyjarboða. Skjálfti af stærðinni 3 1/2 varð svo á sömu slóðum 7 mínútum síðar. Nokkrir minni skjálftar fylgdu í kjölfarið. Skjálftar af þessari stærð verða á þessum slóðum á nokkurra ára fresti.

Ragnar Stefánsson.

 

Ekki frétt 27. nóvember 2003

Nokkuð hefur verið um það að fólk hafi hringt á Veðurstofuna í dag vegna féttar sem það kveðst hafa heyrt um fimm leytið á Rás 2 um að Heklugos væri hafið.
Ekkert er um að vera á Heklusvæðinu og eru þetta líklega endurteknar gamlar fréttir frá febrúar 2000, sendar út í tilefni afmælis Rásar 2.

Kristín S. Vogfjörð
Jarðeðlissviði Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálftar NNA af Siglufirði 6. nóvember 2003.

Skjálftahrina er nú í gangi um 26km NNA af Siglufirði. Síðan á miðnætti hafa mælst þar um 37 smáskjálftar. Stærsti skjálftinn varð rétt fyrir klukkan níu í morgun. Eftir yfirferð fyrstu gagna virðist hann vera að stærð 3,0.
Skjálftahrinan milli Öskju og Herðubreiðar er enn í gangi. Fyrstu skjálftarnir urðu þar á mánudag. Yfir þrjátíu skjálftar hafa orðið þar síðan, um 8 síðan á miðnætti. Eins og er sjást engin merki um kvikuhreyfingar á óróagögnum en áfram er fylgst vel með svæðinu.

Sigurlaug Hjaltadóttir
Veðurstofu Íslands

 

Skjálfti í Bárðarbungu 5. nóvember 2003.

Skjálfti, tæplega 3 að stærð (2,7) varð í Bárðarbungu í nótt, kl 00:40. Síðustu tvo sólarhringana hefur verið i gangi skjálftahrina nærri Dyngjufjöllum. Flestir skjálftanna (um 12) eru staðsettir 5-8 km NA af Dreka i Dyngjufjöllum og fjórir i viðbót norðan Herðubreiðarlinda. Skjálftarnir eru á stærðarbilinu 1.0-1.9 og raða sér nokkurn veginn á SSV-NNA línu. Sjá nánar http://hraun.vedur.is/ja/viku/2003/vika_45/index.html

Sigurlaug Hjaltadóttir
Jarðeðlissvið Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálftar við Kleifarvatn 28. október 2003.

Jarðskjálftahrina hófst við norðvestanvert Kleifarvatn kl. 20:30 í kvöld, 28. október 2003. Stærsti skjálftinn, 2,4 að stærð varð kl. 21:04.
Alls hafa mælst um 15 skjálftar er þetta er ritað (kl. 21:45) og telst hrinan enn í gangi.

Halldór Geirsson
Jarðeðlissvið Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálfti SSV við Trölladyngju 18. október 2003.

Í dag 18. október kl. 13:52 var skjálfti að stærð 3,5 sem átti upptök um 9 km SSV við Trölladyngju norðan Vatnajökuls. Enginn eftirskjálfti hefur fylgt þessum skjálfta.

Gunnar B. Guðmundsson
Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálfti norður af Grímsey 15. október 2003.

Í morgun 15. október kl. 10:50 var skjálfti að stærð 3.6 sem átti upptök um 14 km norður af Grímsey. Aðeins 2 eftirskjálftar að stærð um 1.5 hafa mælst. Ekki er vitað til þess að skjálftinn hafi fundist.

Gunnar B. Guðmundsson
Jarðeðlissvið Veðurstofu Íslands,
gg@vedur.is

 

Jarðskjálfti NNV af Grímsey 13. september 2003.

Kl. 08:23 í morgun mældist skjálfti 3,3 að stærð um 40 km NNV af Grímsey. Fleiri skjálftar hafa ekki mælst á þessu svæði.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir,
jarðeðlissviði V.Í.

 

Jarðskjálftar vestur af Reykjanestá 28. ágúst 2003.

Hrina smáskjálfta hófst rúmlega 6 í kvöld um 7,5 km vestur af Reykjanestá. Þegar þetta er skrifað voru skjálftarnir orðnir 33 og kom sá síðasti klukkan 10 í kvöld og var hann jafnframt sá stærsti eða upp á 2,2 á Richter.

Hjörleifur Sveinbjörnsson
Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti NV við Krísuvík 23. ágúst 2003.

Heldur hefur dregið úr skjálftavirkni NV við Krísuvík, sem hófst með skjálfta af stærð rúmlega 5 kl 02.00 í nótt.
Fjöldi skjálfta með stærð yfir 2 voru um 40 á fyrsta klukkutímanum eftir aðalskjálftann, um 20 á þeim næsta og um 10 á þeim þriðja.
Stærstu skjálftar voru:
kl.        Stærð
02:00    5 (rúmlega)
02:07    3.9
02:14    2.8
02:22    2.8
03:20    3.4
Kort með upptakadreifingu sjálfvirkt staðsettra skjálfta má sjá á vefslóðinni:

http://hraun.vedur.is/ja/viku/2003/vika_34/rns_20030823.gif

Kristín S. Vogfjörð
Jarðeðlissviði Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálfti við Kleifarvatn 23. ágúst 2003

Kl. 02:00 í nótt varð skjálfti af stærðinni 5 við Krísuvík. Skjálftinn fannst m.a. á Reykjavíkursvæðinu, á Akranesi og á Bláfeldi á Snæfellsnesi.

Kristín S. Vogfjörð
Jarðeðlissviði, Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálfti í Öxarfirði 29. júlí 2003.

Jarðskjálfti, rúmlega 3,3 að stærð, varð kl. 08 36 í morgun, þriðjudag, á Öxarfirði, 20-25 km vestur af Kópaskeri. Jarðskjálftar eru algengir á þessu svæði.

Ragnar Stefánsson 4663125, 8994805
Erik Sturkell 5226000

 

Jarðskjálfti í Bárðarbungu 5. júlí 2003.

Kl. 21:48 í kvöld, 5. júlí, mældist skjálfti að stærð 3.0 í norðaustanverðri Bárðarbungu í Vatnajökli. 3 mínútum seinna mældist skjáfti upp á 2 og kl 22:59 mældust enn tveir skjálftar að stærð 1,8 og 2. Skjálftavirknin virðist enn vera í gangi, kl 23:37 mældist skjálfti að stærð um 1,5. Þetta er meiri virkni en vanalega á þessu svæði, en ekkert bendir þó til þess í augnablikinu að meiri atburðir séu í uppsiglingu. Fylgst verður þó með skjálftavirkninni á svæðinu þar til um hægist.

Steinunn S. Jakobsdóttir.

 

Jarðskjálfti í Trölladyngju 1. júlí 2003.

Klukkan tæplega hálf-fimm í nótt varð skjálfti um 8,7km SSV af Trölladyngju. Skv. Sjálfvirkri úrvinnslu mældist hann 3,1 að stærð og merktur með grænni stjörnu á kortinu.
Eftir fyrstu yfirferð yfir gögnin virðist skjálftinn ekki vera nema um 2,5 að stærð. Ekki er búist við neinni sérstakri virkni á þessu svæði í kjölfar þessa skjálfta.

Sigurlaug Hjaltadóttir.

 

Fréttatilkynning frá jarðeðlissviði Veðurstofu Íslands 24. júní 2003.

Síðan Suðurlandsskjálftarnir urðu árið 2000, með upptök í Holtum og við Hestfjall, hefur þótt sérstök ástæða til þess að fylgjast með því, hvort virknin kynni að færast til vesturs, út í Ölfus og út eftir Reykjanesskaganum, og leiða þar til jarðskjálfta, sem hætta gæti stafað af. Samkvæmt sögulegum heimildum verða skjálftar á þessu svæði ekki eins stórir og þeir geta orðið austar á brotabeltinu, en samt full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart þeim.

Undanfarna mánuði hefur orðið viss aukning lítilla skjálfta í Ölfusi og nokkur önnur merki þess að spenna sé vaxandi þarna. Þótt slík spennuupphleðsla eigi það til að hjaðna aftur án jarðskjálfta, töldum við rétt að gera Almannavörnum viðvart um þetta, föstudaginn 20. júní, s.l.

Almannavarnir og Almannavarnarráð brugðust skjótt við og kölluðu vísindamannaráð Almannavarna til fundar til að fjalla um þessar upplýsingar og ræða til hvaða viðbragða væri eðlilegt að grípa. Voru menn sammála um að efla þyrfti vissa þætti jarðvöktunarinnar og fara yfir viðbúnaðaráætlanir. Í framhalda af þessum fundi fóru fulltrúar Almannavarna og fulltrúi Veðurstofunnar til viðræðna við formenn almannavarnarnefnda og lögreglustjóra á svæðinu í gær, mánudag. Þá hafa vísindamenn hafið aðgerðir til að efla vöktun svæðisins.

Um leið og við lýsum ánægju okkar með skjót og góð viðbrögð Almannavarna og Almannavarnarráðs viljum við ítreka að hér er um að ræða vægar vísbendingar. Líklegast er að þessar vægu breytingar sem við sjáum leiði ekki til stórs skjálfta. Það er þó ekki hægt að útiloka það og þess vegna höfum við lagt til að hugað sé að því hvernig yfirvöld og almenningur gætu dregið úr hættu, sem hugsanlega kynni að stafa af slíkum skjálfta.

 

Græn stjarna á jarðskjálftakorti 12. júní 2003

Skjálfti sem merktur er með grænni stjörnu á sjálfvirka kortinu á vefnum hjá okkur og er samkvæmt sjálfvirkri úrvinnslu upp á 3.0, er í rauninni töluvert minni skjálfti.
Eftir að farið hefur verið yfir skjálftann þá kemur í ljós að hann er aðeins upp á 2.3 og væntanlega hefur enginn fundið hann, enda ekkert slíkt verið tilkynnt.

Hjörleifur Sveinbjörnsson
Veðurstofu Íslands, jarðeðlissvið

 

Jarðaskjálfti út af Reykjanesi 27. apríl 2003

Jarðskjálftahrina varð í nótt út af Reykjanesi. Sterkastir urðu skjálftarnir skömmu fyrir kl. 6 í morgun, og var stærsti skjálftinn þá 4.2 á Richter-kvarða. Upptökin eru um 40 km suðvestur af Reykjanesi, n.t.t. 2-3 km vestur af Geirfugladrangi. Jarðskjálftahrinur eru þekktar á þessum slóðum.

Ragnar Stefánsson, sími 4663125

 

Jarðskjálfti undir Nesjavöllum 11. mars. 2003

Jarðskjálfti varð undir Nesjavöllum um kl. 17:27 í dag. Stærð skjálftans var um 3 á Richter. Hann fannst þokkalega í Reykjavík og í Hveragerði og alla vega ein tilkynning hefur borist um að hann hafi fundist vestast á Selfossi. Um 10 skjálftar mældust á þessu svæði fyrir um 2 vikum síðan, sá stærsti þá var um 2,4 á Richter.

Steinunn S. Jakobsdóttir

 

Skjálftar norðan Vatnajökuls 3. mars 2003

Skjálftarnir sem voru staðsettir á virkjunarsvæðinu norðan Vatnajökuls voru sprengingar. Það er oft erfitt að greina í sundur sprengingar og jarðskjálfta og við fengum enga tilkynningu um sprengingarnar. Eftir samtal við verktaka kom í ljós að um sprengingar hafi verið að ræða.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, jarðeðlissvið, V.Í.

Jarðskjálfti við Siglufjörð 19. janúar 2003

Um 07:50 í morgun mældist skjálfti 3,2 að stærð um 18 km vestan við Siglufjörð. Ekki hafa mælst fleiri skjálftar á þessu svæði.
Þeir skjálftar sem mældust í vestanverðum Mýrdalsjökli í nótt voru allir innan við 3 að stærð.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálftahrina á Tjörnesgrunni 11. janúar 2003.

Í kvöld  um kl. 21:50 hófst jarðskjálftahrina á Tjörnesgrunni um 29 km ASA af Grímsey.
Stærsti skjálftinn í hrinunni var kl. 22:56 og mældist hann 3,4 stig á Richter. Tveir aðrir skjálftar um 3 stig á Ricter voru kl. 22:28 og 22:41. Skjálftarnir hafa ekki fundist svo vitað sé.

Gunnar B. Guðmundsson, gg@vedur.is
Veðurstofu Íslands