Fréttir

Heimasíða
Heim- Efnisyfirlit- Forsíða sviðsins- Eðlisfræðisvið- Jarðskjálftar- Eldgos - GPS- Óson- Órói- Þensla- Fréttir- Starfsmenn & póstur -English- webmaster@vedur.is       PREPARED
Eldri fréttir- Suðurlandsskjálftar- Mýrdals- og Eyjafjallajökull -

Jarðskjálftahrina norður af Grímsey 14. desember 2005.

Í nótt 14.12. 2005, kl. 02:25 mældist skjálfti að stærð 3 með upptök um 12 km norður af Grímsey. Frá því í gær hafa 16 skjálftar mælst þar. Flestir minni en 2 að stærð.
Jarðskjálftahrinur eru algengar á þessu svæði.

Gunnar B. Guðmundsson, gg@vedur.is
Eðlisfræðisviði,
Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálftahrina austur af Grímsey 4. nóvember 2005

Um kl. 14:40 hófst allsnörp jarðskjálftahrina um 15-20 km austur af Grímsey og mældust 4 skjálftar af stærðinni 3 - 3,5 fyrstu 20 mínúturnar auk annarra smærri skjálfta. Um kl. 15 dró verulega úr virkninni, en þó hafa mælst 50 - 60 skjálftar eftir það (fram til kl. 15:55), þeir stærstu um 2,4.
Búast má við að það smá dragi úr virkninni næstu klukkutímana.

Steinunn S. Jakobsdóttir,
Eftirlitsdeild Veðurstofu Íslands

 

Grímseyjarhrinan í 41. viku 2005

Grímseyjarhrinan er í rénun og verða nú um 2 skjálftar á klukkutíma. Alls hafa skráðst ríflega 300 skjálftar síðan á föstudagseftirmiðdag.
Þeir stærstu milli kl. 5 og 10 að morgni laugardags, en þá mældust fimm skjálftar um og yfir stærðinni 3. Þetta er stærsta hrinan á þessu svæði síðan í janúar á þessu ári, en þá urðu yfir 500 skjálftar við suðurjaðar þessarar hrinu, og einn skjálfti af stærðinni 4,5 sem fannst víða á Norðurlandi.
Sjá sjálfvirkt staðsetta skjálfta síðustu daga:

http://hraun.vedur.is/ja/viku/2005/vika_41/grimseyjarhrina.gif

Við Kistufell í norðanverðum Vatnajökli varð lítil hrina, milli kl. 9 í gærkvöldi og 8 í morgun. Alls mældust 16 skjálftar, sá stærsti kl. 21:46 í gærkvöldi, hann var um 3 að stærð.

Sjá: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2005/vika_41/bab.gif

Kristín S. Vogfjörd
Eftirlitsmaður í 41 viku, Eðlisfræðisviði VÍ

 

Jarðskjálftahrina austur af Grímsey 14. október 2005

Skjálftahrina hófst 16 km austur af Grímsey á föstudagseftirmiðdag. Alls hafa mælst þar yfir 230 skjálftar, þar af 150 síðan á miðnætti.
Hrinan var kröftugust milli klukka 5 og 10 í morgun, en enn er þó nokkur virkni á svæðinu.
Fimm skjálftar, um og yfir 3 að stærð hafa mælst, sá seinasti nú laust eftir kl. 4. Stærsti skjálftinn, sem varð kl. 5 síðastliðna nótt, var  3.5 að stærð.

Kristín S. Vogfjörð
Eðlisfræðisviði VÍ.

 

Jarðskjálfti  NA af Siglufirði 10. október 2005

Kl. 08:13 í morgun varð skjálfti 3,7 að stærð um 11 km NA af Siglufirði.
Skjálftinn fannst vel á Ólafsfirði (kona tilkynnti um hvin, mikið högg og hristing í hillusamstæðu) og maður í Hörgárdal vaknaði við hann.
Tveir skjálftar, 1,8 og 1,9 að stærð hafa fylgt á eftir, sá fyrri kl. 8:17 og sá seinni kl. 10:45
2005-10-10 08:12:48.3, 3.7 að stærð, 10.7 km NA af Siglufirði 
2005-10-10 08:16:50.4, 1.8 að stærð, 10.2 km NA af Siglufirði 
2005-10-10 10:45:00.2, 1.9 að stærð, 10.7 km NA af Siglufirði

Kristín S. Vogfjörð, Eðlisfræðisviði VÍ
Eftirlitsmaður í 41 viku

 

Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg  7. september 2005

Í gærkvöldi hófst skjálftahrina úti á Reykjaneshrygg, um 40 km SV af Reykjanestá. Stærsti skjálfti hrinunnar varð rétt fyrir hálf-fjögur í nótt og var hann um 3,6 að stærð. Fjöldi minni skjálfta fylgdu í kjölfarið og stóð hrinan fram undir morgun.
Engin merki eru um eldsumbrot á þessum slóðum og hrinur sem þessar eru nokkuð algengar úti á hryggnum.

Matthew J. Roberts
Eðlisfræðisviði, Veðurstofu Íslands.

Jarðaskjálfti norður af Tjörnesi 3. september 2005

Milli kl. 4:28 og 7:01 í morgun mældust 7 skjálftar um 30 km norður af Tjörnesi. Sjálfvirknin áætlaði stærsta skjálftann, sem varð kl. 5:01, af stærð 3,1 og setti því stjörnu á kortið, en nánari úrvinnsla gefur stærðina 2,9. Ekki er búist við neinu sérstöku í kjölfarið.

Steinunn S. Jakobsdóttir,
Eftirlitsdeild Veðurstofu Íslands.

 

Jarðskjálfti á Torfajökulssvæðinu 11. ágúst 2005

Kl. 09:11 í morgun vað skjálfti af stærðinni 3,1 á vestanverðu Torfajökulssvæðinu, og fannst hann í Landmannalaugum. Í kjölfar skjálftans, kl. 09:33 fylgid svo annar minni, 1,0 að stærð. Á undanförnum vikum hafa mælst þarna nokkrir skjálftar.

Kristín S. Vogfjörð
Eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálftahrina austur af Grímsey 31. júlí 2005

Í gærkvöldi hófst jarðskjálftahrina um 16 km austur af Grímsey. Mest var virknin á milli 5 og 7 í morgun og mældist stærsti skjálftinn af stærð 4 um kl. 6:03. Alls hafa mælst um 50 skjálftar á svæðinu, en mikið dró úr virkninni upp úr kl. 7.

Steinunn S. Jakobsdóttir.
deildarstjóri Eftirlitsdeildar Eðlisfræðisviðs Veðurstofu Íslands.

 

Ísskjálftar í Vatnajökli og rennsli í Skaftá 31. júlí 2005

Að sögn Sverris Elefsen hjá Vatnamælingum hætti regluleg dægursveifla rennslis í Skaftá við Sveinstind í morgun milli kl. 4 og 5. Síðan þá hefur rennsli og leiðni aukist hægt og er rennslið nú um 270 m3/s og leiðnin 200 míkróSiemens/cm, en var um 110 - 120 míkróSiemens/cm í gær.
Jarðskjálftamælar Veðurstofunnar á Grímsfjalli í Vatnajökli og á Skrokköldu við Sprengisandsleið sýna enn mikla ísskjálftavirkni og er virknin heldur að aukast í augnablikinu. Allt bendir því til að hlaupvatn sé að koma fram í Skaftá við Sveinstind. Starfsmenn Veðurstofu og Vatnamælinga munu halda áfram að fylgjast með þróuninni.

Steinunn S. Jakobsdóttir,
deildarstjóri Eftirlitsdeildar Veðurstofunnar.

 

Ísskjálftar í Vatnajökli 29. júlí 2005

Frá því kl. 22 í gærkvöldi, fimmtudaginn 28. júlí, hafa sést óróapúlsar á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar á Grímsfjalli og Skrokköldu. Þessu valda svonefndir ísskjálftar í vestanverðum Vatnajökli. Óróinn kemur í hrinum sem vara nokkra klukkutíma og er heldur rólegra á milli. Erfitt er að staðsetja þessa skjálfta nákvæmlega en allt bendir til þess að vatn úr Skaftárkatli sé að brjóta sér leið undir jöklinum. (Sjá: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2005/vika_30/bab.gif ) Að öllum líkindum mun vatn ná fram að jökulrönd snemma í fyrramálið. Samkvæmt upplýsingum frá Magnúsi Tuma Guðmundssyni er hæð í botni Skaftárkatla farið að nálgast þá stöðu sem verið hefur í byrjun fyrri hlaupa (Sjá vef Jarðvísindastofnunar: http://www.jardvis.hi.is/page/jhskaftarkatlar ). Haft hefur verið samband við Almannavarnir og mun lögreglan í Vík kanna svæðið í kvöld. Einnig eru menn frá Vatnamælingum á leið á svæðið. 

Steinunn S. Jakobsdóttir, deildarstjóri,
Matthew Roberts, Eftirlitsdeild Veðurstofu Íslands.

 

Jarðskjálfti á Skjálftandaflóa 29. júlí 2005.

Í dag 29. júlí kl. 00:59 varð jarðskjálfti að stærð 3,0 á Richterkvarða á Skjálfandaflóa. Upptökin voru 15 km. NV af Húsavík.Einn smærri jarðskjálfti fylgdi í kjölfarið.
Ekki hefur orðið vart við frekari virkni á svæðinu.
Á krækjunni sem fylgir hér á eftir má sjá jarðskjálftavirknina í viku 30.
Sjá http://hraun.vedur.is/ja/viku/2005/vika_30/index.html

Matthew J. Roberts
Eðlisfræðisviði, Veðurstofu Íslands

 

Grænar stjörnur á jarðskjálftakorti 27. júlí 2005.

Á jarðskjálftakorti Veðurstofunnar í dag (27. júlí) sjást tvær grænar stjörnur: ein 15 km norðvestur af Torfajökli, hin á norðanverðri Bárðarbungu, í Vatnajökli.
Þessir jarðskjálftar eru rétt staðsettir en minni að stærð en frumniðurstöður gáfu til kynna.
Yfirfarnar mælingar eru:
Torfajökulssvæðið kl. 11:48, 27/07/2005 – 2,2 á Richterkvarða.
Bárðarbungusvæðið. kl. 15:16, 27/07/2005 – 2,6 á Richterkvarða.
Frekari jarðskjálftavirkni í vikunni má sjá á eftirfarandi vefsíðum:
http://hraun.vedur.is/ja/viku/2005/vika_30/index.html og http://drifandi.vedur.is/skjalftavefsja/index.html.

Matthew J. Roberts,
Eðlisfræðisviði, Veðurstofu Íslands.

 

Jarðskjálfti við Kleifarvatn. 22. júní 2005

Kl. 7:30 í morgun, miðvikudaginn 22. júní, mældist skjálfti af stærð 3,5 við vestanvert Kleifarvatn. Annar nokkuð minni mældist um 1 sekúndu fyrr. Alls hafa um 60 skjálftar mælst á svæðinu síðan kl. 3 í nótt.
Í ágúst 2003 varð hrina á svipuðum slóðum, en stærsti skjálftinn í þeirri hrinu mældist af stærð rúmlega 4.
Í júlí 2004 mældist all nokkur hrina við Fagradalsfjall, nokkuð vestar á Reykjanesskaga. Þá mældust nokkur hundruð skjálftar á nokkrum dögum, en enginn þeirra náði stærðinni 3.

Steinunn S. Jakobsdóttir
deildarstjóri Eftirlitsdeildar Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálftahrina við Geirfuglasker 14. maí 2005

Rétt fyrir kl. 3 í nótt hófst jarðskjálftahrina við Geirfuglasker, um 30 km SV af Reykjanestá. Alls hafa mælst þar 20 skjálftar í dag á stærðarbilinu 1,5-2,5 og urðu flestir á milli 5 og 6 í nótt. Hrinan virðist að mestu genginn yfir. Síðast mældist hrina á þessum slóðum dagana 27. - 28. apríl, þá mældust um 100 skjálftar á stærðarbilinu 1-2,5. Virkni er enn á Reykjaneshryggnum við 62°N, um 300 km SV af Reykjanesi. Um 15 ár eru síðan mælanleg hrina varð á svipuðum stað á hryggnum.

Yfirlit um virkni við Geirfuglasker 15. apríl til 14. maí má finna á slóðinni: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2005/vika_19

Steinunn S. Jakobsdóttir,
deildarstjóri Eftirlitsdeildar Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg 10. - 11. maí 2005

Sjálfvirku staðsetningarnar úr SIL kerfinu sýna mjög ónákvæma mynd af upptökum jarðskjálftanna á Reykjaneshrygg. Ástæða þess er  að upptökin eru langt utan við SIL mælakerfið og afstaða þeirra gagnvart mælanetinu er mjög óhagstæð, nánast á beinni línu miðað við það.
Einnig hefur hraðalíkanið áhrif. 
Handúrvinnsla á skjálftunum bendir eingöngu til þess að upptökin séu bundin við takmarkað svæði á um 62.2N eins og sýnt er á kortinu sem sýnir staðsetta skjálfta frá EMSC.

rr200505.gif (184197 bytes)

Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg 10. - 11. maí 2005

Um miðjan dag í gær, þriðjudaginn 10. maí, hófst jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg um 200 - 300 km suður af Reykjanestá. Fyrsti skjálftinn mældist kl. 14:30 af stærð u. þ. b. 3,5 og staðsetningin nálægt 62°N og 25°V. Milli kl 16:30 og 18 varð önnur hrina þar sem stærsti skjálftinn mældist um 4. Um kl. 21:12 hófst þriðja hrinan, sem stóð í um 40 mín og mælast nokkrir skjálftar á því tímabili allt að 5 af stærð.
Upp úr miðnætti eykst virknin aftur og virðist ná hámarki um kl. 7 í morgun, miðvikudaginn 11. maí. Skjálftar í nótt hafa stærstir verið um 4,5 - 5.
Virknin er enn í gangi, en ekki er að sjá gosvirkni í gögnunum. Virknin er það langt frá landinu að íslenska kerfið staðsetur ekki skjálftana af mikilli návæmni, þó að virknin sjáist mjög vel hér. Upplýsingar um skjálftana má einnig finna á vefsíðum EUROPEAN-MEDITERRANEAN SEISMOLOGICAL CENTRE:
http://www.emsc-csem.org/
Á sjálfvirku skjálftakortunum á vef Veðurstofunnar virðist skjálftavirknin ganga á land á Suðurlandi. Þetta er ekki rétt, vegna hinnar miklu virkni suður á hrygg reynir sjálfvirka skjálftakerfið að staðsetja virknina nær landi, en allir þessir skjálftar færast suður á bóginn við nánari skoðun.

Steinunn S. Jakobsdóttir,
deildarstjóri eftirlitsdeildar,
Veðurstofu Íslands.

 

Jarðskjálfti við Grindavík 24. apríl 2005 kl. 17:40.

Kl. 17:40 sunnudaginn 24. apríl 2005 mældist jarðskjálfti af stærðinni 3,2 um 3 km norðaustur af Grindavík. Skjálftans varð vart í Grindavík. Fáir eftirskjálftar hafa mælst á svæðinu, en tveir smáskjálftar mældust á sömu slóðum síðastliðna nótt.

Halldór Geirsson
Jarðeðlisfræðingur
Veðurstofa Íslands

 

Jarðskjálfti undir Dyngjujökli 2. apríl 2005 kl. 19:48

Í kvöld 2.4.2005 kl. 19:48 varð skjálfti að stærð 3 með upptök undir Dyngjujökli norðan við Bárðarbungu í Vatnajökli. Fáeinir minni skjálftar hafa einnig mældust.
Sjá http://hraun.vedur.is/ja/viku/2005/vika_13/bab.gif
Jarðskjálfta eru algengir á þessu svæði.

Kveðja,
Matthew J. Roberts
Eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands

 

Stórskjálfti við Súmötru í Indónesíu 28. mars 2005 kl. 16:09 UTC

Stórskjálfti af stærðinni Mw=8,7 varð 28. mars kl. 16:09 UTC við vesturströnd eyjunnar Súmötru í Indónesíu.  (sjá meira: USGS og ESCEM ).
Skjálftinn var um 200 km suðaustan við stórskjálftann sem varð á annan jóladag og útslag hans á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar er um fjórum sinnum minna en frá jólaskjálftanum. Mesta útslag er um 2 mm á mælinum á Gilhaga í Öxarfirði. Lóðrétta-, radíal- og tangentþátt skjálftaritanna má sjá hér. Helstu rúmbylgjur (P, PP, S, SS) og yfirborðsbylgjur (L=Love, R=Rayleigh) eru merktar inn á skjálftaritin. Samanburður við skjálftaritin frá jólaskjálftanum er hér.

Kristín Vogfjörð vogfjord@vedur.is
Veðurstofa Íslands.

Jarðskjálfti norður af mynni Eyjafjarðar 25. mars 2005 kl. 23:06.

Jarðskjálfti rúmlega 3 að stærð var 15-20 km norður af mynni Eyjafjarðar kl. 23:06 og hafa minni háttar eftirskjálftar fylgt í kjölfarið.
Segja má að undanfari þessara skjálfta hafi verið jarðskjálftar sem urðu miklu norðar þ.e. norður af Kolbeinsey föstudaginn 24. mars kl. 18:07 rétt norður af Kolbeinsey, 2.9 að stærð og annar kl. 18:25, 80 km norður af Kolbeinsey, 3.6 að stærð. 
Skjálftarnir sem urðu í gær eru á mörkum norður-suður sigdældar, norður af Eyjafirði og Húsavíkur-Flateyjar misgengisins. Skjálftar af svipaðri stærð eru algengir þarna, síðast í nóvember 2004.

Ragnar Stefánsson,
899-4805, 466-3125

Jarðskjálfti í Íran 22. febrúar 2005

Jarðskjálfti Mb=6.0 að stærð varð í Íran kl. 02:25. Útslag skjálftans á mælinum á Gilhaga í Öxarfirði má sjá á mynd hér til hliðar.
Einnig er hægt að fá upplýsingar um skjálftann á vefsvæðum CSEM-EMSC og USGS

Kristín S. Vogfjörð
Veðurstofu Íslands

iranskj.gif (919981 bytes)

Jarðskjálfti austur af Íslandi 31. janúar 2005

Hér má sjá mynd sem sýnir upptök skjálftans. ijm.gif (226419 bytes)

 

Jarðskjálfti 200 km austur af Íslandi, 31. janúar 2005.

Skjálfti af stærðinni Mb=5,2 varð klukkan 20:29, 200 km austur af landinu. Skjálftinn fannst víða á Austurlandi. Útslag skjálftans á mælinum á Gilhaga í Öxarfirði má sjá hér.
Einnig er hægt er að fá ýmsar upplýsingar um skjálftann á vefsvæðum emsc-csem og USGS

Hjörleifur Sveinbjörnsson
Veðurstofa Íslands

Jarðskjálftahrina SV af Reykjnesi 15. janúar 2005.

Jarðskjálftahrina varð í morgun (15. jan 2005) um 5-10 km SV af Reykjanesi. Stærsti skjálftinn var 3.7 og sá næsti 3.3 stig. Þá var einn 2.9 en aðrir til muna minni.
Nú hefur dregið úr hrinunni, en um 20 skjálftar hafa mælst.

Þórunn Skaftadóttir
Veðurstofu Íslands

Jarðskjálfti á Skjálfandadjúpi 5. janúar 2005

Jarðskjálfti að stærð um 5 varð kl. 15:49 á Skjálfandadjúpi, um 21 km ASA af Grímsey. Hann fannst meðal annars á Húsavík, Dalsmynni, Grenivík, Svarfaðardal og á Akureyri. Kl. 15:45 varð forskjálfti á sömu slóðum að stærð um 3.5. Stærsti eftirskjálftinn varð kl. 15:50 um 4 að stærð. Tugir eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfarið. Engin merki er um eldvirkni (gosóróa) og ennþá er ekkert sem bendir til að þessir skjálftar séu forboðar fyrir stærri skjálfta á svæðinu.

Kveðja
Gunnar B. Guðmundsson, gg@vedur.is
Veðurstofa Íslands,
Bústaðavegi 9
IS-150 Reykjavík


Ef stór skjálfti verður á Íslandi er hægt að sjá innan skamms tíma mat sjálfvirkra kerfa erlendra jarðskjálftastofnana á stærð og staðsetningu skjálftans. Staðsetningar og stærðir sjálfvirku kerfanna eru nokkuð ónákvæmar. Yfirfarnar niðurstöður berast nokkru síðar.