|
Hlaupórói vegna hlaups úr Grænalóni
Fyrir hádegi 11. ágúst 2002 varð vart við aukinn hátíðnióróa á jarðskjálftastöðvunum við Kálfafell og Fagurhólsmýri. Jarðskjálftar í óróanum eru staðsettir í vestanverðum Skeiðarárjökli. Óróinn stafar af hlaupi úr Grænalóni niður í ána Súlu og verður að líkindum til þegar vatnið er að brjóta sér farveg undir jöklinum. Skv. upplýsingum frá Vegagerðinni virðist hlaupið vera að ná hámarki um þessar mundir.
Línurit: Órói á Kálfafelli 4. - 14. ágúst
2002
Órói á Fagurhólsmýri 4. - 14. ágúst 2002
Órói á nokkrum mælistöðvum 11.
ágúst 2002
Órói á nokkrum mælistöðvum 12.
ágúst 2002
Reglulega uppfærð óróarit
Halldór Geirsson, 13. ágúst 2002 kl. 13
Órói í júlí og ágúst hugsanlega frá Skaftárkötlum í Vatnajökli
Síðustu daga hefur órói á
Grímsfjallastöðinni tekið svolitlum breytingum. Þann 25. júlí dettur niður
hátíðnióróinn (2-4 Hz), en fer svo upp aftur í byrjun 30. júlí. Í
síðastliðnu Skaftárhlaupi urðu
einnig breytingar á hátíðnióróanum, en þá var hann að vísu mun meiri eins og
sést á línuritunum
hér að neðan.
Óróamynd 22. júní - 2.
ágúst 2002
Óróamynd 25. júlí
2002
Óróamynd 29. júlí
2002
Óróamynd 30. júlí
2002
Hjörleifur Sveinbjörnsson
Óróakviður 9-11. júlí ættaðar frá Skaftárkötlum í Vatnajökli.
Á línuritunum hér fyrir neðan sjást óróakviður mældar á jarðskjálftastöðvunum á Grímsfjalli, Kálfafelli, Skrokköldu og Snæbýli. Á línuritunum er tíðni og stefna jarðarhreyfingar sýnd. Svipaður órói hefur áður sést eftir Skaftárhlaup.Ekki er skýrt svo öruggt megi telja eðli þessa óróa. Þetta tengist vafalaust þrýstiléttingu eftir að vatn er hlaupið úr kötlunum og áður en jökullinn fergir svæðið aftur með sínum þunga. Hugsanlega tengist þetta suðu (vatns) og hröðu uppstreymi efst í jarðskorpunni og nálægt mótum jökuls og jökulbotns, og líklega einhverjum hreyfingum á kviku neðar. Sumir telja þetta endurspegla gos undir jökli.
Ragnar Stefánsson
Óróamynd 9.
júlí 2002. Órói frá kl. 20:05 - 20:10.
Óróamynd 10. júlí
2002. Órói um kl. 11:39 og kl 22.
Óróamynd 11. júlí
2002. Órói frá því um kl. 08.
Óróahviður 9., 10. og 11. júli 2002
Ég vek athygli á óróahviðum sem komu fram á skjálftamælum 9. - 11. júlí. Þær sjást best á mæli í Vonarskarði, koma einnig fram á mælum á Grímsfjalli, Skrokköldu, Kálfafelli og víðar. Þessar hviður eru af sama tagi og þær sem komið hafa fram í lok Skaftárhlaupa undanfarin ár. Þær eru með lágri tíðni og minna mest á óróa sem fylgir eldgosum, t.d. í Gjálp 1996 og Grímsvötnum 1983 og 1998. Ef þið skoðið óróagröfin á vefsíðu VÍ sjást hviðurnar best á Grímsfjalli. Þær eru grænu línurnar sem sjást á milli bláu línanna. Bláa grafið sýnir hátíðniatburði, mest ísbresti, snjóflóð oþh. Gosórói sést best á græna línuritinu sem sýnir lægri tíðnir.
Kveðjur,
Páll Einarsson, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands
Myndir af sigkötlum í Vatnajökli sem mynduðust við umbrotin 8. - 9. júlí 2002.
Sigketill við
Pálsfjall_1
Sigketill við
Pálsfjall_2
Horft frá
Tungnaárjökli yfir Skaftá og Langasjó
Tungnaárjökull
útfall
Vestari
Skaftárketill 1
Vestari
Skaftárketill 2
Vestari
Skaftárketill 3
Vestari
Skaftárketill 4
Frekari fréttir af sigkötlum í Vatnajökli 10. júlí 2002
Í útvarpinu í gærkvöldi var haft eftir mér
að sigketillinn austur af Pálsfjalli væri nýr. Það sem ég sagði var að
sprungurnar á jaðri ketilsins virtust nýjar. Eins og kunnugt er eru katlar í
Vatnajökli staðbundnir yfir svæðum með auknu varmaflæði. Ályktun mín um
aldur sprungnanna var byggð á athugunum gerðum í flugi yfir jökulinn í fyrrakvöld
og aftur í gærkvöldi. Í seinna fluginu tókum við eftir að dýpi ketilsins
við Pálsfjall hafði aukist dálítið frá því sem áður var. Í morgun voru
flestar sprungurnar huldar snjó, en þó var ketillin enn dýpri en í gær.
Í morgun kom einnig í ljós að jökulhlaupið úr Tungnaárjökli hafði minnkað og
voru sumir farvegir frá í gær uppþornaðir.
Nokkur snjókoma hefur verið á jöklinum í nótt, sem gerði athuganir á litlum
jökulsprungum erfiðar, en þó sáust stórar sprungur í krapanum í kringum
vestari Skaftárketilinn (sjá
mynd). Stærð og umfang sprungna við ketilinn hefur aukist. Þó að hlaupið
úr Tungnaárjökli sé í rénun, mun það taka jökulinn einhvern tíma að jafna
sig og má þess vegna búast við aukinni sprungumyndun í kringum vestari
Skaftárketilinn. Flug yfir vestanverðan Vatnajökul var mjög erfitt vegna
hvassviðris.
Matthew J. Roberts
Um breytingar á katli við Pálsfjall 10. júlí 2002
Eftir að hafa skoðað myndir Matthews betur á skárri skjá (er staddur í Kaupmannahöfn) þá er ljóst að ég var full fljótur á mér áðan. Þegar betur er að gáð sjást nokkrar fínar sprungur hægra megin neðarlega í katlinum á myndinni sem merkt er Pálsfjall 2. Þessar sprungur eru innan við eldri sprungurnar sem ég lýsti í fyrra skeyti. Þetta sýnir að eitthvað hefur lekið undan honum. Magnið er trúlega mjög lítið (kannski 100 þús. m3) en þarna hlýtur að hafa sigið um nokkra metra. Það eru athyglisverðar upplýsingar því mér er ekki kunnugt um að þetta hafi sést áður. Hugsanlegt er að þetta tengist Skaftárhlaupinu, að breytingar í vatnsþrýstingi og rennsli undir jöklinum samfara því hleypi út því vatni sem a.m.k. stundum safnast undir þennan ketil.
Með kveðju,
Magnús Tumi
Skjálftavirkni 10. júlí 2002.
Lítið hefur verið um skjálfta undir
Mýrdalsjökli í nótt og frekar dregið úr skjálftatitringi undir Vatnajökli miðað
við það sem verið hefur síðustu daga.
Hrina smáskjálfta hefur verið 15-20 km austan og suðaustan Grímseyjar frá því upp
úr miðnætti, mest milli kl. 6 og 7 í morgun 2.3 á Richterkvarða.
Ragnar Stefánsson, 8994805 aðfararnótt 10. júlí.
Eftirfarandi setning var í skeyti sem ég sendi í gær (9. júlí)
"Matthew og Bretarnir sem hann er í
slagtogi með fannst áberandi að hlaupið sé undir Tungnárjökli, sem sagt undir
syðsta hluta Tungnárjökuls,rétt norður af Skaftárjökli, en vatnið fari síðan til
suðurs út í Skaftá þegar það er komið undan jökuljaðrinum og telja að þarna
sé um norðurfærslu að ræða á hlaupleiðinni, miðað við fyrri hlaup."
Ég vil koma því á framfæri að Oddur Sigurðsson, sem manna mest hefur fylgst með
þessum hlaupum um langt skeið, hringdi og gerði við þetta athugasemd. Hann telur að
ekki sé um norðurfærslu að ræða ef miðað er við fyrri hlaup almennt. Fleiri hafa
bent á að í fréttinni sé líklega of mikið gert úr því að um norðurfærslu sé
að ræða. Að gefnu tilefni skal það tekið skýrt fram að Matthew og Bretarnir voru
alls ekki að tala um norðurfærslu sem gæti leitt til þess að hlaupið kæmi fram
norðan Tungnárfjalla, t.d. í Tungnaá.
Ragnar Stefánsson
Breytingar á Vatnajökli 9. júlí 2002
Mattew Roberts, jöklafræðingur á Veðurstofunni, flaug með flugmanni frá Flugfélaginu Jórvík yfir Vatnajökul milli kl. 10-11 í morgun þriðjudag 9. júlí.Þeir sáu nýtt sig í vestari Skaftárkatlinum, 50-80 metra djúpt, og svolítið teygt úr honum í stefnu NNA-SSV. Staðsetning beint yfir katlinum var 64° og 29.517' N og 17° 36.553' V, sem er greinilega vestari og minni ketillinn. Þegar þeir nálguðust jökuljaðarinn fundu þeir megna brennisteinsfýlu þannig að þeim leið illa og hækkuðu flugið. Þeir mældu einnig staðsetningu VNV af Þórðarhyrnu, þar sem var ketill sem nýlega hafði sigið. Flugmaðurinn hafði líka flogið þarna yfir í gærkvöldi og sagði frá nýlegu sigi þar (nýleg hringbrot í katlinum). Þegar þeir flugu þarna yfir í morgun fannst flugmanninum ketillinn hafa sigið síðan í gær. Staðsetningin var 64° 17.496' N og 17° 40.206' sem er rétt hjá Pálsfjalli. Matthew og Bretarnir sem hann er í slagtogi með fannst áberandi að hlaupið sé undir Tungnárjökli, sem sagt undir syðsta hluta Tungnárjökuls,rétt norður af Skaftárjökli, en vatnið fari síðan til suðurs út í Skaftá þegar það er komið undan jökuljaðrinum og telja að þarna sé um norðurfærslu að ræða á hlaupleiðinni, miðað við fyrri hlaup. Þeir benda líka á að það hafi verið lítils háttar hlaup í Skeiðará undanfarna daga (jarðhitavatn í því). Það sést þó ekki í mælingum Vatnamælinga sem bendir til að það komi aðallega fram í einhverri einni lænu árinnar, og magnið það lítið miðað við heildarmagnið að það reiknist ekki inn í heildarmælingunni.
Ragnar Stefánsson
Ýmsar upplýsingar mánudaginn 8. júli, 2002.
Jarðskjálftavirkni eða óróakviður síðustu daga á jarðskjálftastöðinni á Grímsfjalli, má hugsanlega tengja við Skaftárhlaup sem hófst upp úr kl. 1 í nótt úr öðrum hvorum Skaftárkatlinum, Lokahrygg. Fáeinir smáskjálftar voru staðsettir á Lokahrygg í Vatnajökli 1. og 2. júlí. Á mælinum hefur hátíðniórói verið nokkuð mikill frá því 4-5 júlí, með hámark upp úr miðnætti 7 júlí. Slíkur hátíðniórói er að mestu samsettur úr litlum skjálftum, sem við þó höfum ekki getað staðsett. Líklegt er að uppruni þessa hátðnióróa hafi frekmur verið á Lokahyrgg eða nálægt Skaftárkötlum en undir Grímsvötnum. 3. og 4. júlí voru staðsettir nokkrir litlir jöklaskjálftar vestast í Skeiðarárjökli. Slíka skjálfta tengjum við t.d. við aukið vatnsstreymi undir skriðjöklum. Matthew Roberts sem staddur var í morgun við Súlu segir að þar hafi líklega komið smáhlaup á síðustu dögum. Þetta merkir hann af jökum á bökkum Súlu. Líklega tengjast jöklaskjálftarnir og vöxturinn í Súlu hlaupi úr Grænalóni, líklega 3-4. júlí.
Í nótt(8/7) kl. 5 og aftur um 8 í morgun urðu skjálftahrinur undir Mýrdalsjökli, mest nálægt miðbiki Kötluöskjunnar, stærð mest um 2 stig. Síðari hluta vetrar og í vor héldu smáskjálftar áfram undir vestanverðum Mýrdalsjökli, meira en verið hefur á síðustu áratugum , þegar (haust)skjálftarnir vestanvert hafa hætt að miklu leyti nálægt áramótum. Það er líka athyglisvert að hrinurnar í nótt voru undir Kötlu. Segja má að þetta hafi byrjað í gær (7/7), en þá þegar var áberandi að skjálftarnir höfðu líka tilhneygingu til að vera undir miðbiki öskjunnar. Reyndar hefur verið lítils háttar aukning á smáskjálftavirkni undir Mýrdalsjökli síðustu viku, og jafnvel síðustu 2-3 vikur. Öll hefur þessi virkni í Mýrdalsjökli átt sér upptök á litlu dýpi, innan 2-3 kílómetra dýpi.
Það er of fljótt að draga miklar ályktanir um orsakir þessarar virkni sem hér er upp talin, eða reyna að spá í hugsanlegt orsakasamband. Mér fannst rétt að láta vita af þessu. Ég bið alla sem eru að skoða hluti á þessu svæði að láta vita í tölvupósti til myrdalur@vedur.is eða ragnar@vedur.is.
Ragnar Stefánsson.
Hlaup í Skaftá 8. júlí 2002
Hlaup er hafið í Skaftá. Fyrstu merki um hækkun vatnshæðar í Skaftá við Sveinstind sjást um kl. 01:20 í nótt. Svo vel vildi til að menn frá Vatnamælingum voru á staðnum, og urðu þeir þess varir í morgun áður en aðvörunargildum mælisins var náð. Ekki er vitað á þessari stundu, hvort um er að ræða hlaup úr minni eða stærri katlinum.
Kristinn Einarsson
Skjálftahrina við Grímsey 21. maí 2002.
Skjálfti af stærðinni 2.9 átti sér stað um 14
km NA af Grímsey klukkan 10:20 og annar af stærðinni 3.0 á Richter á sama stað
klukkan 10:50.
Nokkur virkni er á þessu svæði sem stendur.
Hjörleifur Sveinbjörnsson
Jarðfræðingur
Skjálftahrina við Grímsey 9. maí 2002.
Um kl. 21:30 í gærkvöldi (9. maí) hófst jarðskjálfahrina um 11 km NA af Grímsey.
Virknin var mest frá því upp úr kl. 22 og fram til 8 í morgun. Alls hafa mælst um
100 skjálftar í hrinunni þeir stærstu um 2.5 á Richter. Innan við tugur
skjálfta náði stærð 2. Hrinan er nú mjög í rénun.
Steinunn S. Jakobsdóttir.
Smátitringur í Grímsvötnum og undir Skeiðarárjökli 14. apríl 2002.
Undanfarna daga hefur smátitringur farið
vaxandi á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar við Grímsvötn. Þetta endurspeglar
hugsanlega vaxandi spennu í ís yfir Grímsvötnum og í útfalli þeirra. Þetta fór í
ákveðið hámark nálægt miðnætti í gærkvöldi, laugardagskvöld, en
titringurinn er enn yfir venjulegum mörkum.
Í gær laugardaginn 13. apríl var svo líka tiltölulega mikið um smátitring á
jarðskjálftastöð að Kálfafelli. Sá titringur á líklega upptök í
Skeiðarárjökli, og hugsanalega tengdur aukinni ísspennu þar, vegna aukins rennslis.
Jarðskjálftamælingarnar gætu bent til þess að um sé að ræða aukið vatnsrennsli
úr Grímsvötnum, undir Skeiðarárjökul. Hugsanlegt er að smáhlaup sé í gangi.
Mælingar Vatnamælinga sýna einnig aukið vatnsmagn í Skeiðará undanfarna daga og
mælingar á leiðni gætu bent til hlaupvatns.
Þessar vísbendingar um hugsanlegt minni háttar hlaup eru nú til frekari skoðunar hjá
Veðurstofu og Vatnamælingum.
Frá Jarðeðlissviði Veðurstofu Íslands.
Ragnar Stefánsson, 4663125, 8994805.
Jarðskjálfti í Henglinum 6. apríl 2002.
Í kvöld kl. 22:36 mældist skjálfti að stærð 3.1 með upptök undir Skeggja í Henglinum. Nokkrir skjálftar hafa orðið á þessu svæði síðastliðinn sólarhring, en þeir hafa flestir verið mjög smáir. Engin virkni er í gangi á svæðinu þegar þetta er skrifað.
Steinunn S. Jakobsdóttir.
Skjálfti undir Vatnafjöllum 4. apríl 2002.
Í dag kl 17:45 mældist skjálfti með upptök
undir Vatnafjöllum af stærð 2,8 á Richter.
Sjálfvirka úrvinnslan gaf stærð 2,9 - 3,0 sem þýðir að hann birtist í smátíma
sem græn stjarna á kortinu á netinu og er sú stjarna ástæðan fyrir þessum
pósti!
Steinunn S. Jakobsdóttir.
Smáskjálftahrina við Flatey á Skjálfanda 31. mars 2002.
Hrina lítilla jarðskjálfta hófst við Flatey
á Skjálfanda um kl. 4 í dag, páskadag.
Stærsti skjálftinn varð kl. 21:40 og 2,5 að stærð.
Smáskjálftahrinur eru tiltölulega algengar við Flatey.
Ragnar stefánsson.
Jarðskjálftahrina fyrir Norðurlandi 27. mars 2002.
Um kl. 3 í nótt hófst jarðskjálftahrina
fyrir Norðurlandi.
Upptökin eru á litlu svæði, skammt norðuraustur af mynni Eyjafjarðar, skammt
norður af af Gjögurtá. Stærsti skjálftinn varð kl. 3:27, 2.9 á Richterkvarða.
Síðan hafa mælst fjölmargir skjálftar á þessum stað, en aðeins 5 stærri
en 2. Skjálftarnir hafa orðið minni með morgninum.
Þarna verða tiltölulega oft jarðskjálftahrinur.
Ragnar Stefánsson,
4663125
Skjálfti af stærðinni 2 á Richter 9.6 km SSV af Kröfluvirkjun
varð klukkan 7:07 í morgunn og varð hans vart við Mývatn
Hjörleifur Sveinbjörnsson
Jarðfræðingur
Órói á Svartárkoti í Bárðardal vegna flóða í Skjálfandafljóti.
Gunnar B. Guðmundsson (2002-01-17)
Hlauptoppur í Jökulsá á Fjöllum
Í tilefni hlauptops í Jökulsá á Fjöllum höfum við skoðað óróa á nokkrum jarðskjálftastöðvum á nálægum svæðum. Þann 6. janúar 2002 er óróatoppur við jarðskjálftastöðina við Grímsvötn. Slíkir óróatoppar eru ekki óalgengir á þeim slóðum og því ekki líklegt að flóðið sé tengt aukinni jarðhitavirkni þar.
Á mælunum koma fram óróatoppar á ýmsum tímum eins og sjá má t.d. á mælinum í Svartárkoti í Bárðardal sem byrjar um miðnætti þann 6. janúar. Þessi toppur er sennilega tengdur skammvinnu flóði í ofanverðu Skjálfandafljóti.
Ragnar Stefánsson (2002-01-08 17:50)
30. desember 2001
Skjálftahrina hófst við Eldeyjarboða, 80 km SV af Reykjanesvita, uppúr miðnætti. Stærstu skjálftarnir eru á bilinu 3.0 - 3.5 á Ricterskvarða.
Skjálftahrinur á Reykjaneshrygg eru algengar.
Vigfús Eyjólfsson
Myndin sýnir hraða í mm/s á jarðskjálftamælinum í Gilhaga í Öxarfirði. Komutími helstu bylgna er merktur inn á myndina. Efst er lóðréttur þáttur mælisins, í miðju radíal þáttur, og neðst tangent þáttur.
Tveir skjálftar fundust í Reykjavík í nótt. Sá fyrri var klukkan 3:48 af stærðinni 2.8 á Richter og sá síðari rétt um 40 sekúndum síðar af stærðinni 2.9 á Richter
Báðir áttu upptök sín um 7.5 km norðan við Bláfjallaskála.
Hjörleifur Sveinbjörnsson, jarðfræðingur
Tveir jarðskjálftar urðu í morgun kl. 09:28 og 10:43 um 7 km norðan við Bláfjallaskála. Þeir mældust 2.2 og 2.7 stig á Richterskvarða.
Sá seinni fannst í Kópavogi, Mosfellsbæ og í Reykjavík.
Á miðvikudaginn mældust tveir skjálftar á sama svæði, en þeir voru minni, 2.1 og 0.6 að stærð.
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir
Kl. 23:16 í kvöld mældist skjálfti af stærðinni 4,1 á Richter 13 km VSV af Kópaskeri. Þessi skjálfti kemur í kjölfar hrinu sem hófst kl. 1:40 í fyrrinótt. Íbúar á Kópaskeri fundu vel fyrir honum. Fylgst verður vel með framvindu skjálftanna á svæðinu.
Hjörleifur Sveinbjörnsson
Tilkynnt var að jarðskjálfti hefði fundist í Reykjahlíð um klukkan átta í kvöld. Skjálftinn, sem varð kl. 19:58, mældist 2,4 á Richter og voru upptökin við Námaskarð. Að öðru leiti hefur verið rólegt í jörðinni fyrir norðan og er þetta eini skjálftinn sem mælst hefur á Norðurlandi í dag.
Steinunn S. Jakobsdóttir.
Nú er talið að vatnsborðslækkunin í Kleifarvatni megi rekja
til sprungna sem að opnast hafa í botni þess í Suðurlandsskjálftunum síðastliðið
ár. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þetta gerist.
Árið 1663 urðu jarðskjálftar á Reykjanesskaga sem að sögn síra Þorkels
Arngrímssonar eyddu marga bæi fjær og nær. Kleifarvatn nálægt Krísuvík minnkaði,
vatnið sogaðist svo í gjár neðanjarðar að nú varð fær vegur fram með því
undir klettunum, en áður hafði vatnið náð 300 fet upp í hamrana
Heimild: Þorvaldur Thoroddsen 1905: Landskjálftar á Íslandi. II. Annað hefti af
"Jarðskjálftar á Suðurlandi". Hið íslenzka bókmenntafélag.
Kaupmannahöfn.
Þetta þýðir líklega að strandlínan hafi hörfað um 300 fet svipað og nú hefur
gerst og gera má ráð fyrir að þessar breytingar gangi til baka.
Vigfús Eyjólfsson
Í nótt, um kl 05:30, 26. júlí 2001, hófst óróahviða
á Torfajökulssvæðinu og stóð hún í u.þ.b. hálftíma. Óróinn sást vel á
nálægustu mælum (skh, snb, mid, hvo, hau, skr, vat). Áður höfðu mælst nokkrir
litlir skjálftar á svæðinu. Sá fyrsti í gær kl. 10:57 og var hann um 1 að stærð.
Hviðan náði hámarki um kl. 05:40 og upp úr 05:40 fóru að greinast skjálftar í
henni. Þrír skjálftar sem urðu undir lok hviðunnar hafa verið staðsettir. Sá
stærsti þeirra var rúmlega 1. Tveir skjálftar hafa mælst þarna í morgun, en að
öðru leyti er kyrrt á svæðinu.
Kort
Kristín S. Vogfjörð
Línuritið sýnir hvernig jarðskjálfti af stærðinni 8,1 á Ricterskvarða með
upptök í Perú kom fram á jarðskjálftamæli í Gilhaga við Öxarfjörð.
Hér má sjá hvernig hraði í stóra jarðskálftanum í El Salvador kemur fram á mæli
í Gilhaga í Öxarfirði
Kristín S. Vogfjörð
Jarðskjálftahrina hófst kl. 21 19 laugardagskvöldið 4. nóvember með upptök í
Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga. Stærstu skjálftarnir í hrinunni voru
kl. 22:28, stærð 2.9 kl. 22:39, stærð 3.3 og kl. 23:23, stærð 3.1. Upptök 9 km NA
af Grindavík. Allir þessir skjálftar hafa fundist á Reykjanesskaganum og reyndar
nokkrir fleiri, en minni í næsta nágrenni við upptökin.
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir
Ragnar Stefánssonn
Fimm skjálftar mældust í morgun (á tímabilinu 05:47 - 07:29) á Reykjaneshrygg
við Geirfugladrang. Skjálftarnir voru á stærðarbilinu 2,2 - 3,6 og mældist sá
stærsti klukkan 07:07.
Steinunn S. Jakobsdóttir
Í dag kl. 17:57 mældist stór skjálfti á Reykjaneshrygg u.þ.b. 250 km suðvestur
af Íslandi, 5.0 á Richter
Vigfús Eyjólfsson
Í gærkveldi var tvívegis hringd úr Fljótshverfi og tilkynnt um brennisteinslykt,
sem er venjulega fyrirboði Skaftárhlaups. Fyrst var tekið eftir þessu um 19:30. Þá
var vindátt NNV. Eftir að hafa haft samband við vísindamenn á Raunvísindastofnun,
sem gáfu þær upplýsingar að kominn væri tímí á Skaftárhlaup og að þau væru
yfirleitt í ágúst var ákveðið að tilkynna Almannavörnum um hugsanlega byrjun á
Skaftárhlaupi. Sjálfvirkir mælar Vatnamælinga
Orkustofnunnar staðfestu síðar að hlaup væri hafið.
Skrifað 06. ágúst 2000
Vigfús Eyjólfsson
Í dag kl. 15:41 varð jarðskjálfti í Holtum,9 km suður af
Árnesi. Hann var 6.5 að stærð. Annar skjálfti varð kl. 15:42, 5.0 að stærð, 9.5
km austur af Þjórsárbrú, skammt frá Eystra Gíslholtsvatni.
Kort
Vigfús Eyjólfsson
Í morgun kl 07:00 varð jarðskjálfti 2.5 km NNV af Grímsey. Hann
var 3.3 stig að stærð og fannst í eynni. Nokkrir skjálftar mældust á svæðinu í
gærkvöldi og nótt, og voru 5 þeirra yfir 2.5 stig.
Þórunn Skaftadóttir
Í gærmorgun 6.febrúar kl. 6:30 skók skjálfti, að stærð 3.2,
Surtsey. Við og við mælast skjálftar í Surtsey en þessi verður að teljast í
stærra lagi. Ekki hefur verið neitt framhald á þessari virkni en
skjálftaeftirlitsmenn Veðurstofunnar fylgjast vel með.
Kristín Jónsdóttir.
Jarðskjálfti varð rétt vestan við Kleifarvatn í morgun klukkan
6:01. Hann mældist 2.5 á Richter. Aðeins dró úr skjálftavirkninni eftir skjálftann
í morgun en á síðustu klukkustund (frá kl. 15:30) hafa nokkrir skjálftar á
stærðarbilinu 1-2, mælst á þessu svæði. Fylgist með skjálftavirkninni á síðum
Veðurstofunnar.
Kristín Jónsdóttir.
Jarðskjálftavirkni heldur áfram við Kleifarvatn og nú rétt í
þessu, kl. 14:41, varð skjálfti rétt innan við 3 á Richter við Trölladyngju um 5
km. vestan við Kleifarvatn. Þessi skjálfti fannst í Reykjavík. Fleiri jarðskjálftar
hafa komið í kjölfarið. Þeir eru á svipuðum slóðum og sá stærsti þeirra var
2.2 á Richter en hinir um og innan við 2 á Richerskvarða. Skjálftarnir eru 2 - 5 km.
djúpir. Fylgist með skjálftavirkninni
á síðum Veðurstofunnar.
Kristín Jónsdóttir.
Jarðskjálfti sem mældist 3.2 á Richterskvarða skók jörð við
suðurenda Kleifarvatns klukkan 11:14 í morgun.
Jarðskjálftinn fannst í Reykjavík og honum fylgdu nokkrir minni skjálftar. Sá
stærsti þeirra mældist klukkan 11:36 og reyndist 2.6 á Richter. Skjálftarnir sem
mælst hafa í þessari hrinu eru á 4 - 8 kílómetra dýpi og eru allir við suðurenda
vatnsins.
Kristín Jónsdóttir.
Á mælum Veðurstofunnar tók að gæta örsmárra skjálfta undir Skeiðarárjökli upp úr kl. 17, fimmtudaginn 11. nóvember. Smæð skjálftanna og það hversu langt er þarna milli mælistöðva gerði það að verkum að mjög erfitt var að staðsetja þá með venjulegum aðferðum. Á laugardagskvöldið tók starfsfólk Veðurstofunnar eftir þessum skjálftum og að einhverjir þeirra mundu vera undir Skeiðarárjökli. Þegar fréttir komu af því á sunnudeginum að minni háttar Skeiðarárhlaup væri hafið mátti slá því föstu að þessir skjálftar væru ísskjálftar sem mynduðust í framrás hlaupsins undir jöklinum.
Nú hefur tekist að staðsetja þessa
skjálfta með sæmilegri nákvæmni. Þeir eru ekki langt frá líklegri
hlauprás.
Þessi reynsla er mikilvæg og getur kennt okkur að uppgötva hvenær hlaup hefjast út
frá jarðskjálftamælingum.
Ragnar Stefánsson.
Borholan við Kleifarvatn, sem oft hefur verið nefnd túristaborholan eða stundum drottingarhola hætti að blása aðfaranótt sunnudags. Hún er talin hafa blásið óslitið frá því þarna var borað fyrir meira en 4 áratugum.
Hugsanleg skýring er að holan hafið hrunið saman. Önnur skýring gæti verið að þarna hafi orðið landbreytingar eða sprunguhnik, sem sé ástæða þess að dregur úr jarðhitavirkninni á þessum svæði. Það hefur einnig verið bent á að lækkað hafi í leirhver þarna á svæðinu. Þetta hvort tveggja gæti verið samverkandi.
Jarðskjálftar voru ekki miklir um síðustu helgi, miðað við það sem venjulegt er á þessu svæði. Á hinn bóginn hefur verið tiltölulega mikið um jarðskjálfta þarna, sunnarlega í Sveifluhálsinum, og næsta nágrenni við þetta jarðhitasvæði frá því í lok júní í sumar. Líklegt er að þessir jarðskjálftar tengist kvikuinnskotum á nokkurra km dýpi, og tilheyrandi minni háttar landbreytingum. Ýmis einkenni jarðskjálftanna sem orðið hafa á þessu tímabili styðja að svo sé.
Það er svo annað mál að þótt mikið hafi verið um skjálfta
þarna frá því í sumar miðað við allra síðustu ár, er þetta ekki mikið miðað
við hvað þarna er vanalegt þegar til lengri tíma er litið. Gott eftirlit þarf að
hafa með svæðinu, og er fylgst vel með því á Veðurstofunn, hvað skjálfta
varðar.
Ragnar Stefánsson.