Fréttir

Heimasíða
Heim- Efnisyfirlit- Forsíða sviðsins- Eðlisfræðisvið- Jarðskjálftar- Eldgos - GPS- Óson- Órói- Þensla- Fréttir- Starfsmenn & póstur -English- webmaster@vedur.is       PREPARED
Eldri fréttir- Suðurlandsskjálftar- Mýrdals- og Eyjafjallajökull -
 

Stórskjálfti við Súmötru í Indónesíu 26. desember 2004 kl. 00:58 UTC

Stórskjálfti af stærðinni Mw=8,9 varð 26. desember kl. 00:58 UTC við vesturströnd eyjunnar Súmötru í Indónesíu. Skjálftinn, sem var grunnur, varð við samgengishreyfingar á mótum Indlands- og Burmaplatnanna  (sjá meira um hann hér ).
Skjálftinn sést vel á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar, en yfirborðsbylgjur frá honum ollu tæplega 9 mm útslagi á mælinum á Gilhaga í Öxarfirði. Lóðrétta-, radíal- og tangentþátt skjálftaritanna má sjá hér. Helstu rúmbylgjur (P, PP, S) og yfirborðsbylgjur (L=Love, R=Rayleigh) eru merktar inn á skjálftaritin.

Kristín Vogfjörð vogfjord@vedur.is
Veðurstofa Íslands.

 

Jarðskjálfti í Öxarfirði 24. desember 2004 kl. 19:39.

Jarðskjálfti sem mældist 3,7 á Richterkvarða varð u.þ.b. 15 km SV af Kópaskeri, 24. desember kl. 19:39. Engar tilkynningar bárust Veðurstofunni um að hann hefði fundist.
Nokkrir minni eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið og stóðu þeir til u.þ.b. kl. 22:00 um kvöldið.
Engar frekari hræringar hafa orðið í Öxarfirði.
Hér má sjá kort sem sýnir jarðskjálftavirkni í Öxarfirði síðustu daga.

Matthew J. Roberts
Eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands

 

Stórskjálfti SA af Ástralíu 23. desember 2004 kl. 14:59 UTC

Stórskjálfti af stærðinni M=7,8 varð 23. desember kl. 14:59 UTC   norður af Macquarie-eyju fyrir sunnan  Ástralíu.
Skjálftinn sést vel á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar. Hér sést útslag hans á mælinum á Gilhaga í Öxarfirði.

Kristín Vogfjörð vogfjord@vedur.is
Veðurstofa Íslands.

Jarðskjálfti fyrir mynni Eyjafjarðar 22. nóvember 2004.

Í dag 22.11. 2004 kl. 12:29 varð skjálfti að stærð 3,4 með upptök fyrir mynni Eyjafjarðar. Engir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Upptökin eru á svonefndu Húsavíkur-Flateyjarmisgengi þar sem jarðskjálftar eru tíðir. Engin tilkynning hefur borist um að skjálftinn hafi fundist.

Gunnar B. Guðmundsson, gg@vedur.is
Veðurstofa Íslands

 

Hér má sjá nýjustu fréttir af Grímsvatnagosinu.

Skjálftavirkni 2. - 3. nóvember 2004

Virknin í gosstöðvunum í Grímsvötnum hefur verið nokkuð breytileg í nótt og virðist nú heldur minni en í gær. Um miðnættið dró nokkuð úr krafti gossins, en jókst svo aftur um kl. 02:30 og hefur verið nokkuð svipað síðan.
Skjálftavirkni er þar ekki mikil, tveir skjálftar um 2 að stærð mældust um 2 leytið í nótt.
Sjá .http://hraun.vedur.is/ja/grf_trem.gif

Nokkur skjálftavirkni hefur verið á Reyjaneshrygg og hafa þar mælst nokkrir skjálftar síðan um kl 3 í nótt. Þeir eru 2-3 að stærð.

Kristín S. Vogfjörð
Eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands

Hér má sjá óróaplott frá öllum jarðskjálftastöðvum Veðurstofunnar. Takið eftir að gosóróinn sést á mælum sem eru langt frá Grímsvötnum, t.d Haukadal á Suðurlandi og Grímsstöðum.

Upplýsingar frá viku 44 (25. okt. - 1. nóv). 

bab.gif (63319 bytes)
Aukin virkni hefur verið alla vikuna í Grímsvötnum í Vatnajökli og hafa nú mælst þar 30 skjálftar, þar af nokkrir yfir 2 að stærð. Óróahviður sáust á mælinum á Kálfafelli á fimmtudag. Sjá óróann þá á mismunandi tíðniböndum á Kálfafelli og á Grímsfjalli. Mikil smáskjálftavirkni er greinileg á Grimsfjalli. Óróinn á Kálfafelli var lotubundinn og mest á tíðniböndunum 6-7 Hz og 3-5 Hz (sjá tíðniróf á lóðrétta þætti mælisins á Kálfafelli milli kl. 12:00 og 12:25 á fimmtudag. Um hádegi á föstudag komst leiðniskynjari Vatnamælinga Orkustofnunar (sjá hér) aftur í snertingu við vatn og sýndi þá töluvert aukna leiðni. Allt þetta gaf til kynna að Skeiðárarhlaup væri farið að grafa um sig. Kl. 4:45 á föstudagsnótt fóru að mælast ísskjálftar í Skeiðararjökli. Alls hafa nú mælst þar 10 ísskjálftar. Leiðni og vatnshæð hafa einnig vaxið frá því á föstudagsnótt. Bakgrunnsórói á mælinum á Grímsfjalli á hádegi á sunnudag sést hér. Hann fer vaxandi eins og sjá má hér (sjá hér).

 

Eldgos í Grímsvötnum 2. nóvember (kl. 03:49)

Vörubílsstjóri við Kárahnjúka hafði samband við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og tilkynnti að hann sæi gosmökkinn. Mökkurinn féll nokkuð inn í skýin, en lýstist reglulega upp af eldglæringum.

Steinunn S. Jakobsdóttir

 

Eldgos í Grímsvötnum 2. nóvember.

Gosóróinn frá Grímsvötnum hefur verið nokkuð stöðugur síðan upp úr kl. 23 þ. 1.11.04. Fyrstu merki um gosmökk sáust á veðurradar Veðurstofunnar kl. 23:10 og náði mökkurinn þá upp í um 8 km hæð. Kl. rúmlega 1 í nótt náði mökkurinn upp í um 13 km hæð, en hefur verið nokkuð breytilegur síðan þá (þetta er skrifað kl. 2:35). Gosmökkurinn sýnist á radarmyndinni vera frekar sunnarlega miðað við Grímsvötn, en að öllum líkindum er það vegna ónákvæmni í mælingunum, en radarinn er í um 260 km fjarlægð frá gosinu. Margt bendir til að gosið núna sé norðan við gosstöðvarnar frá 1998, en enn hefur ekkert verið staðfest í þeim efnum.

Steinunn S. Jakobsdóttir

 

Skjálftavirkni í Grímsvötnum 1. nóvember 2004.

Kl. 20:34-20:38 í kvöld sendi Veðurstofan frá sér eftirfarandi tilkynningu

„ Í framhaldi af vaxandi jarðskjálftum undanfarna daga og sérstaklega í dag  hófst samfellt hrina jarðskjálfta og óróa kl. 20 10 í kvöld. Líklegt má telja að þá hafi gos hafist í eða við Grímsvötn. Fylgst verður með framvindunni á Veðurstofunniu.

Ragnar Stefánsson

Nú er klukkan 23:30:
Í framhaldi af ofnaskráðri frétt hefur verið fylgst með framvindunni á Veðurstofunni og smám saman orðið ljósara að um gos er að ræða og það upp úr ísnum. Það er erfitt að dæma um það með fullri vissu hvenær gosið hefur komist upp úr ísnum. Mjög líklegt er  að það hafi komist upp úr ísnum um kl. 21 50. Þá hætta að vera skjálftar í óróanum, sem bendir til að gosrásin upp úr sé orðin greið.
Það hefur enn ekki sést til gossins en það stafar væntanlega af því að þarna er slæmt veður og afleitt skyggni.
Þegar borinn er saman gosóróinn og jarðskjálftar núna og fyrir gosið 18. desember 1998, bendir það til þess að um svipaðan atburð sé að ræða. Þó voru skjálftar miklu meiri á undan gosinu 1998, sérstaklega síðustu 5 klukkustundirnar á undan gosinu. Þessi mismunur gæti stafað af því að gosið núna ætti greiðari leið en þá upp á yfirborðið vegna þess hve stutt er frá gosinu 1998.
Varðandi nákvæma staðsetningu gossins virðist það vera í eða nálægt Grímsvötnum. Ekki er þó hægt að útiloka að það sé aðeins sunnar, jafnvel aðeins sunnan við Grímsfjall.
Búið er að loka veginum um Skeiðarársand, þar sem búast má við auknu vatnsrennsli í hlaupinu sem nú stendur yfir..

Áfram verður fylgst framvindunni á Veðurstofunni í nótt.

Ragnar Stefánsson, 8994805, 4663125
Steinunn Jakobsdóttir, 522 6168
Matthew Roberts, 5226148

 

Skjálftavirkni í Grímsvötum (1. nóv. 2004).

Seinsustu tvær vikur hefur verið aukin skjálftavirkni í Grímsvötnum í Vatnajökli og hafa stærðir skjálftanna farið vaxandi frá um 1 upp í stærð rúmlgega 3 í morgun kl. 6:51. Á fimmtudag varð vart lágtíðni óróahviða á mælinum á Kálfafelli á Síðu sem gaf til kynna að Skeiðarárhlaup væri um það bil að hefjast. Á föstudag fór svo leiðniskynjari Vatnamælinga Orkustofnunar við Skeiðarárbrú að sýna aukna leiðni og fljótlega upp úr því fór vatn að hækka í Skeiðará. Ískskjálftar í Skeiðarárjökli fóru að mælast laust fyrir kl. 5 á föstudagsnótt og hafa haldið áfram síðan. Auk skjálftavirkninnar í Grímsvötnum heldur lágtíðni bakgrunnsórói á Grímsfjalli áfram að hækka. Fylgst verður áfram með framvindu skjálftavirkninnar í Grímsvötnum og hlaupinu í Skeiðará.

sjá http://hraun.vedur.is/ja/viku/2004/vika_44/index.html

og http://hraun.vedur.is/ja/viku/2004/vika_45/index.html

Kristín S. Vogfjörð
Eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálftahrina norður af Hveravöllum 1. október 2004.

Síðustu tvo sólarhringa hefur verið smáskjálftahrina í Guðlaugstungum 20 km norður af Hveravöllum. Í nótt klukkan 5:43 varð skjálfti þar að stærð 3,3. Frá áramótum hefur verið nokkur skjálftavirkni á þessum slóðum sem er óvanalegt.

Vigfús Eyjólfsson, jarðfræðingur,
vigfus@vedur.is Veðurstofa Íslands

 

Jarðskjálftahrina NNA af Siglufirði.

Þann 27. ágúst 2004 hófst jarðskjálftahrina um 22 km NNA af Siglufirði. Hrinan fór rólega af stað, en frá 01:00 til 14:00 þann 28. ágúst náði hrinan hámarki. Þá mældust stærstu skjálftarnir í hrinunni til þessa, 2.8 að stærð.
Um klukkan 6 í morgun (29. ágúst) tók virknin aftur við sér, en þó ekki eins ákaft og í gær. Nú þegar hafa mælst yfir 120 jarðskjálftar á svæðinu.
Skjálftavirkni á þessum slóðum er algeng. Í september 2001 varð hrina á sama stað þar sem mældust yfir 120 jarðskjálftar og stærsti skjálftinn var 3.6 að stærð.

Halldór Geirsson,jarðeðlisfræðingur
Eðlisfræðisvið, Veðurstofu Íslands

 

Skjálftavirkni við Grímsey, vegna stjörnu á vefkorti 12. ágúst 2004.

Skjálftahrina er nú í gangi um 17 km A af Grímsey. Milli 20 og 30 skjálftar hafa verið staðsettir þar síðan í gær. Stærsti skjálftinn, sem varð á svæðinu um kl 14:17 í dag, reyndist vera um 2,9 Ml að stærð þegar búið var að fara yfir gögnin. Skjálftahrinur eru algengar á þessum slóðum.

Sigurlaug Hjaltadóttir,  jarðeðlisfræðingur
Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálftahrina við Fagradalsfjall 22. júlí 2004.

Hrinan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga heldur áfram. Eftir að hrinan náði hámarki í gær milli 14 og 16 minnkaði virknin fram til kl. 21 en þá jókst virknin aftur og náði hámarki á milli kl. 2 og 3 í nótt. Á tímabilinu milli 1 og 4 í nótt mældust að jafnaði fleiri en 1 skjálfti á mínútu. Núna á milli 9 og 10 var virknin komin niður í 8 mælda skjálfta á klukkutíma, en eftir 10 virðist virknin vera að aukast aftur. Skjálftarnir eru allir smáir, stærsti skjálftinn í nótt mældist 2,5 á Richter. Ekki er vitað til að neinn skjálftanna í gær og í dag hafi fundist.
Svipaðar hrinur mældust dagana 17. - 22. ágúst 1998, en þá mældist stærsti skjálftinn um 3,5 á Richter og dagana 4. - 6. nóvember 2000  mældist stærsti skjálftinn sömuleiðis um 3,5. Þessi smáskjálftahrina segir okkur að spenna er í jarðskorpunni á þessu svæði. Við vitum ekki enn hvað nákvæmlega veldur. Það gæti verið í gangi einhver kvikuhreyfing í neðri hluta jarðskorpunnar, sem sýnir sig með skjálftavirkninni, líkt og gerðist á Hengilsvæðinu á árunum 1994 - 1998 og við Eyjafjallajökul 1994 og 1999. Á meðan hrinan er í gangi eru auknar líkur á aðeins stærri skjálfta, en hrinan getur einnig gengið yfir án þess að það verði stærri skjálfti en u.þ.b. 3. Ekkert bendir til að kvika sé á leið til yfirborðs.
Áfram verður fylgst með virkninni.

Steinunn S. Jakobsdóttir,
Eftirlitsdeild Eðlifræðisviðs,
Veðurstofu Íslands.

 

Jarðskjálftahringa við Fagradalsfjall 21. júlí 2004.

Hrina smáskjálfta hefur verið í gangi í dag undir Fagradalsfjalli um 9 km norðaustan við Grindavík. Hrinan hófst á fimmta tímanum í morgun. Mest var virknin á milli 14 og 16 í dag, en þá mældust um 50 skjálftar á klukkutíma. Skjálftarnir hafa allir verið smáir, enginn skjálftanna í dag hefur náð stærðinni 2 á Richterskvarða. Alls hafa mælst yfir 300 skjálftar á svæðinu í dag. Svipuð hrina mældist í síðustu viku á sama stað, en skjálftavirknin náði þá yfir stærra svæði til austurs.
Áfram verður fylgst með virkninni.

Steinunn S. Jakobsdóttir

 

Jarðskjálftahrina á Reykjanesi  (14. júlí 2004.)

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga, sem hófst síðastliðinn sunnudagseftirmiðdag er enn í gangi. Upptök skjálftanna mælast norðan við Ísólfsskála á svæði sem nær frá Festarfjalli í suðri og norður í Fagradalsfjall og er um 8-10 km ANA af Grindavík. Virknin hófst vestast á þessu svæði, en hefur síðan færst til norðausturs í átt að Kistufelli. Virknin hefur heldur verið að aukast, í gær mældust á milli 200 og 300 skjálftar á svæðinu og yfir 200 skjálftar hafa mælst það sem af er deginum í dag. Stærsti skjálftinn varð um kl. 21:20 í gærkvöldi, 13. júlí, og mældist hann 2,7. Langflestir skjálftanna eru smáir, aðeins um 10 skjálftar hafa mælst af stærð um og yfir 2 og hafa þeir flestir orðið í dag. Áfram verður fylgst með virkninni.

Steinunn S. Jakobsdóttir,
Þórunn Skaftadóttir,
Ragnar Stefánsson.

 

Jarðskjálfti við Austmannsbungu 2. júlí 2004.

Í nótt kl. 03:56 varð skjálfti að stærð um 4 sem átti upptök við Austmannsbungu í Mýrdalsjökli, við norðausturbrún Kötluöskjunnar.
Fjórir aðrir minni skjálftar að stærð um 2 áttu upptök á sömu slóðum, kl. 03:50, 04:02, 04:08 og 05:50.
Það sjást engin merki um gosóróa undir Mýrdalsjökli og ekkert sem bendir til þess að frekari virkni megi vænta þar.

Gunnar B. Guðmundsson, gg@vedur.is
Veðurstofa Íslands

 

Jarðskjálftahrina úti fyrir Norðurlandi 19. júní 2004.

Síðustu daga hefur virkni verið talsvert mikil úti fyrir Norðurlandi. Síðan á mánudag hafa verið staðsettir 181 skjálfti þar, en virknin tók verulegan kipp 17. júní og virðist enn vera í gangi er þetta er ritað. http://hraun.vedur.is/ja/viku/2004/vika_25/nor.gif
Langflestir skjálftarnir hafa orðið úti fyrir mynni Eyjafjarðar, sbr kort: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2004/vika_25/nordurlandkort_v25_04.jpg (hringur dreginn um virkasta svæðið) og hafa rúmlega 140 skjálftar orðið þar síðan á mánudag.
Skjálftar eru reyndar algengir á þessu svæði. Á myndinni: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2004/vika_25/nordurland_v25_04.jpg má sjá virknina á þessu afmarkaða svæði síðustu fjögur árin. Stærsta hrinan á þessu tímabili varð í lok árs 2001. (efst, stærð skjálfta eftir tíma, næst uppsafnaður fjöldi skjálfta)

Kveðja,
Sigurlaug Hjaltadóttir, jarðeðlisfræðingur
Eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands.

 

Jarðskjálfti í Kverkfjöllum 18. júni 2004.

Rétt eftir miðnætti í nótt varð skjálfti að stærð Ml= 3-3.2 í Kverkfjöllum. Skjálftinn var stakur og engin sjáanleg virkni hefur fylgt í kjölfarið. Aðrir skjálftar sem orðið hafa í Vatnajökli síðustu vikur eru langflestir í vestanverðum jöklinum, sbr. síðasta vikuyfirlit: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2004/vika_24/index.html
Skjálftar verða reglulega á þessum slóðum (þ.e. við Kverkfjöll), sbr kort: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2004/vika_25/kverkfjoll00-04.jpg
Flestir skjálftar sem orðið hafa á svæðinu síðstu 4-5 ár eru á stærðarbilinu 1-2 á Richter. Skjálftinn sem varð í nótt var því í stærra lagi. Síðast varð skjálfti af svipaðri stærð síðla árs 2001.

Sigurlaug Hjaltadóttir
Eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálfti við Öskju 20. janúar 2004.

Kl. 23:00 í kvöld, 20. janúar 2004, mældist jarðskjálfti að stærðinni 3,2 við austanverða Öskju. Nokkrir smærri skjálftar hafa fylgt í kjölfarið en ekki hefur orðið vart við neinn gosóróa eða önnur merki um eldgos.

Halldór Geirsson
Jarðeðlisfræðingur
Eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálfti á Reykjaneshrygg 19. janúar 2004.

Klukkan 09:45 í morgun, 19. janúar 2004, mældist jarðskjálfti að stærðinni 3,1 við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg (um 30 km frá landi). Í kjölfarið hafa mælst rúmlega 10 skjálftar á sama svæði, flestir með stærðir í kringum 2. Ekki hafa mælst neinir skjálftar síðan klukkan 11:15 (ritað kl. 14:15). Ekki hefur orðið vart við gosóróa né neitt sem bendir til eldgoss. Jarðskjálftahrinur eru tiltölulega algengar við Geirfugladrang.

Halldór Geirsson
Eðlisfræðisviði, Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálfti NNV af Surtsey 18. janúar 2004.

Í kvöld, 18. janúar 2004, kl. 22:19 mældist jarðskjálfti að stærð 2.9 um 3 km NNV af Surtsey. Allt bendir til að þetta hafi verið stakur skjálfti, það hafa ekki mælst aðrir skjálftar á svæðinu er þetta er ritað (kl. 23) og engin merki eru um gosóróa.

Halldór Geirsson,
Eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands

 

Jarðskjálfti NV við Hveragerði 7. janúar 2004.

Klukkan 23:25 að kvöldi 7. janúar varð jarðskjálfti sunnan í Dalafelli skammt norðvestan við Hveragerði. Hann var 3,7 stig að stærð og fannst í Hveragerði, Flóanum, Selfossi og víðar. Skjálftanum fylgdu (enn sem komið er) aðeins fáir smáskjálftar.

Þórunn Skaftadóttir
Veðurstofu Íslands

 


Ef stór skjálfti verður á Íslandi er hægt að sjá innan skamms tíma mat sjálfvirkra kerfa erlendra jarðskjálftastofnana á stærð og staðsetningu skjálftans. Staðsetningar og stærðir sjálfvirku kerfanna eru nokkuð ónákvæmar. Yfirfarnar niðurstöður berast nokkru síðar.